Sárt jafntefli við heimsmeistarana

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu gerði 2:2-jafntefli við ríkjandi heimsmeistara Frakka í Guingamp í Frakklandi í kvöld, í vináttulandsleik. Frammistaða íslenska liðsins var lengst af frábær og lofar góðu fyrir leikinn við Sviss í Þjóðadeildinni á mánudagskvöld.

Erik Hamrén stillti upp að mestu leyti sínu sterkasta byrjunarliði, miðað við núverandi hóp. Rúnar Alex Rúnarsson fékk þó tækifæri í markinu og Hólmar Örn Eyjólfsson var hægri bakvörður, en Birkir Már Sævarsson vinstra megin. Kári Árnason kom í vörnina í stað Sverris Inga Ingasonar sem missti af leiknum vegna veikinda, líkt og Emil Hallfreðsson vegna meiðsla. Rúnar Már Sigurjónsson fékk tækifæri á miðjunni og Arnór Ingvi Traustason á vinstri kantinum en annað var nokkuð hefðbundið.

Allt annar bragur var á leik íslenska liðsins í fyrri hálfleik en verið hefur í síðustu leikjum. Liðið virkaði öruggt frá aftasta manni til þess fremsta og ljóst að endurkoma Jóhanns Berg Guðmundssonar og Alfreðs Finnbogasonar stórbætir sóknarleik liðsins. Gömlu styrkleikarnir; beittar skyndisóknir og föst leikatriði, nýttust vel á ný og liðinu tókst að skapa sér nokkur fín færi gegn heimsmeisturunum. Ísland komst svo yfir þegar Alfreð vann boltann af Presnel Kimpembe úti við hornfána og renndi honum út fyrir teiginn á Birki Bjarnason sem skoraði með viðstöðulausu skoti.

Birkir nálægt því að skora annað

Birkir hefði vel getað bætt við öðru marki skömmu síðar þegar Hugo Lloris varði (heims)meistaralega skalla frá Ragnari Sigurðssyni. Birkir náði frákastinu en hitti boltann ekki og Alfreð var svo dæmdur rangstæður.

Frakkar fengu líka færi en ekki eins góð, fyrir utan það þegar Ousmane Dembélé komst einn gegn Rúnari Alexi en markvörðurinn ungi lokaði markinu vel. Staðan var því 1:0 í hálfleik.

Franska liðið virtist ætlal að taka yfir leikinn í upphafi seinni hálfleiks og skapaði sér nokkur færi. Hannes, sem kom inn fyrir Rúnar Alex eftir hléið, varði til að mynda stórkostlega skalla frá Antoine Griezmann.

Kári kórónaði frábæran leik með marki

En eftir tæplega klukkutíma leik komst Ísland í álitlega skyndisókn og fékk tvær hornspyrnur í kjölfarið. Eftir þá seinni, frá Gylfa, skoraði Kári glæsilegt skallamark í þverslá og inn. Kári átti heilt yfir magnaðan leik, varðist mjög vel og skilaði boltanum alltaf vel frá sér auk þess að skora markið góða. Nær allir leikmenn íslenska liðsins áttu hins vegar glimrandi leik, þó að mikið rót hafi komið á leik liðsins síðustu 15-20 mínúturnar eftir því sem skiptingunum fjölgaði.

Franska liðið reyndi hvað það gat að gleðja æsta stuðningsmenn sína á troðfullum leikvanginum, sótti mikið og fékk færi, en gekk hægt að skora. Það var ekki fyrr en að Ísland hafði notað allar sínar sex skiptingar að Kylian Mbappé, sem lék síðasta hálftímann, gat tekið til sinna ráða og jafnað metin fyrir Frakka nánast upp á eigin spýtur. Hann sá til þess að Hólmar skoraði óvart sjálfsmark eftir frábær tilþrif táningsins, og jafnaði svo metin úr vítaspyrnu sem dæmd var á Kolbein Sigþórsson fyrir að handleika knöttinn.

Leiknum var lýst í textalýsingu frá Guingamp sem sjá má hér að neðan og viðtöl koma inn á mbl.is innan skamms.

Frakkland 2:2 Ísland opna loka
90. mín. Kylian Mbappé (Frakkland) skorar úr víti 2:2 - Skorar af fádæma öryggi úr vítinu. Ekkert við þessu að gera fyrir Hannes vítabana.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert