Telur best fyrir sig að spila á Íslandi

Sam Hewson og Hrafnkell Helgason stjórnarmaður hjá Fylki við undirritun …
Sam Hewson og Hrafnkell Helgason stjórnarmaður hjá Fylki við undirritun samningsins í dag. Ljósmynd/Fylkir

Englendingurinn Sam Hewson sagði Fylkismenn hafa sýnt sér mikinn áhuga og það hafi ráðið úrslitum í hans ákvörðun en Hewson skrifaði í dag undir samning við Fylki eftir að hafa leikið með Grindavík síðustu tvö ár. 

„Þjálfarinn og stjórnarmenn sýndu mér mikinn áhuga og vildu fá mig til félagsins. Fylkir er metnaðarfullt félag sem kemur til með að henta mér vel. Persúnlega gekk mér mjög vel í Grindavík og náði persónulegum markmiðum mínum þar auk þess sem liðið náði lengra en búist var við. Ég var mjög ánægður með dvöl mína í Grindavík en vonast nú til að hjálpa Fylki með sambærilegum hætti,“ sagði Hewson í samtali við mbl.is í dag og hann segist reikna með því að vera nýttur inni á miðjunni í liði Fylkis. 

Ljóst er að miðtengiliðurinn Ásgeir Börkur Ásgeirsson mun ekki leika með Fylki á næsta tímabili eins og fram hefur komið. Ásgeir og félagið komust að sameiginlegri niðurstöðu um að losa hann undan samningi sínum til þess að hann gæti fundið sér nýtt lið en Ásgeir hefur áhuga á að breyta um umhverfi. 

Hewson hefur verið á Íslandi árið 2011. Hann sagðist lítið hafa velt því fyrir sér að spila annars staðar. Hann á íslenska unnustu og eiga þau eitt barn. Er þessi fyrrverandi fyrirliði unglingaliðs Manchester United því farinn að skjóta hér rótum.

„Þetta verður mitt áttunda tímabil hér og líklega of seint fyrir Íslendinga að reyna að losna við mig. Ég á ekki von á öðru en að búa hér næstu árin. Mér bauðst að fara til reynslu til félags erlendis en tel best fyrir mig á þessum tímapunkti í lífi mínu að leika á Íslandi,“ sagði Hewson ennfremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert