Fullmargar neikvæðniraddir eftir tvo leiki

Rúrik Gíslason.
Rúrik Gíslason. LJósmynd/Skapti Hallgrímsson

„Við spiluðum fínan leik og gerðum vel það sem við stöndum fyrir. Við vorum þéttir og við héldum boltanum betur og sýndum að það eru gæði í þessu liði á meðan við erum með boltann,“ sagði Rúrik Gíslason, landsliðsmaður í fótbolta, í samtali við mbl.is um vináttuleikinn við Frakka á fimmtudaginn var. 

Fyrir leikinn gegn Frökkum tapaði Ísland fyrir Sviss, 6:0, og Belgíu, 3:0, í Þjóðadeildinni. Hann biður um meiri þolinmæði fólks eftir leikina tvo. 

„Auðvitað tekur það tíma að skerpa okkur saman með nýjum þjálfara og fólk verður að skilja það. Við erum að sýna batamerki leik eftir leik og það er það sem skiptir mestu máli. Við erum staðráðnir í að gera vel og halda áfram að gera Íslendinga stolta. 

Það voru fullmargar neikvæðniraddir eftir þessa tvo leiki. Mér finnst fólk mega hafa aðeins meira svigrúm og ekki vera svona fljót að afskrifa menn. Við erum enn hungraðir og við erum enn að spila til að vinna og spila til að ná í úrslit,“ sagði Rúrik. Hann bætir við að það hafi verið svekkjandi að vinna ekki Frakkland, enda komst Ísland í 2:0.

Væri helvíti svartsýnn að keppa við Jóhann Berg

„Auðvitað eigum við að geta haldið í þessi úrslit. Það var svekkjandi hvernig leikurinn þróaðist að þetta fór jafntefli, en hvort ég sem byrja eða kem inn á er það gamla góða klisjan, að koma inn og gera sitt besta.“

Hvernig finnst Rúrik að keppa við Jóhann Berg Guðmundsson, sem er að spila vel í ensku úrvalsdeildinni, um sæti í byrjunarliðinu í landsliðinu? 

„Ef ég væri bara að keppa við Jóhann Berg, þá væri ég helvíti svartsýnn, ég viðurkenni það. Hann er að gera frábæra hluti úti og með landsliðinu. Það væri brekka ef ég væri bara að spila við hann en sem betur fer get ég boðið upp á fleiri stöður og ég hef spilað fleiri stöður með Sandhausen. Ég er klár í hvað sem er, ég er enn ungur og ég elska enn að spila,“ sagði Rúrik Gíslason ákveðinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert