Þrjú stig gætu dugað

Erik Hamrén, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.
Erik Hamrén, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu. mbl.is/Eggert

Erik Hamrén, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, telur möguleika íslenska liðsins gegn Sviss í 2. riðli Þjóðadeildarinnar góða en Hamrén sat fyrir svörum á blaðamannafundi í Laugardalnum í dag. Ísland tekur á móti Sviss á Laugardalsvelli á morgun en fyrri leik liðanna ytra lauk með 6:0-sigri Sviss í St. Gallen en Hamrén á von á allt öðrum leik frá íslenska liðinu á morgun.

Þá lagði sænski þjálfarinn mikla áherslu á mikilvægi þess að vera í styrkleikaflokki eitt þegar dregið verður í riðla fyrir undankeppni EM 2020. Sigur á morgun gæti dugað liðinu til þess að enda í efsta styrkleikaflokki en dregið verður í undankeppni EM 2. desember í Dublin á Írlandi.

„Eins og staðan er núna erum við í mjög erfiðri stöðu í riðlinum okkar í Þjóðadeildinni. Það er hins vegar afar mikilvægt að vinna á morgun því við viljum vera í efsta styrkleikaflokki fyrir dráttinn í undankeppni EM sem hefst í mars á næsta ári.“

„Það er ekki langt síðan við spiluðum við Sviss en við vorum vissulega án margra lykilmanna. Við ræddum leikinn mjög vel, eftir að honum lauk, sérstaklega það sem miður fór. Við eigum eftir að fara betur yfir á leikinn á morgun en ég á von á allt öðrum leik en gegn Sviss úti í St. Gallen.“

„Þetta er lið sem við teljum okkur geta unnið og kannski duga 3 stig til þess að vera eitt ef efstu tíu liðunum í styrkleikaflokki eitt, það væri vissulega óskandi,“ sagði Erik Hamrén í Laugardalnum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert