Dýrmæt reynsla fyrir Sviss

Petkovic á blaðamannafundi eftir leik.
Petkovic á blaðamannafundi eftir leik.

„Ég þurfti að vera rólegur á hliðarlínunni og sýna öllum að við þyrftum að vera rólegir,“ sagði Vladimir Petkovic, þjálfari Sviss, á blaðamannafundi eftir 2:1 sigur Sviss á Íslandi í Þjóðadeild UEFA um kaflann undir lokin þar sem íslenska liðið pressaði stíft á Sviss að jafna metin.

Hann sagði svissneska liðið hafa fengið dýrmæta reynslu að fá slíka pressu á sig.

„Þetta var erfitt undir lokin og ég verð að hrósa Íslandi sem er með lið sem gefst aldrei upp. Ísland er með hættulegt lið en það var dýrmæt reynsla fyrir okkur að vera í þessari stöðu,“ sagði Petkovic.

„Það sem við tökum sem veganesti úr þessum leik er að við þurfum að sýna meiri karakter, halda boltanum betur og stöðva betur skyndisóknir. Við hefðum mátt gera margt betur. En við áttum skilið að sigra,“ sagði Petkovic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert