Skil ekkert í þessari keppni

Varnarmaðurinn Ragnar Sigurðsson með boltann í leiknum í kvöld.
Varnarmaðurinn Ragnar Sigurðsson með boltann í leiknum í kvöld. AFP

„Við fengum færin og þetta voru frábær skot hjá okkur en annaðhvort var þetta varið eða fór rétt yfir. Þetta datt ekki með okkur í dag og það var klaufalegt að lenda 2:0-undir,“ sagði varnarmaðurinn Ragnar Sigurðsson í samtali við mbl.is eftir 2:1-tap Íslands fyrir Sviss í Þjóðadeildinni í fótbolta í kvöld. 

Hann segir frammistöðuna í síðustu tveimur leikjum góða en var að sjálfsögðu svekktur að fá ekkert út úr leiknum í kvöld. 

„Heilt yfir erum við að gera fullt af góðum hlutum en mörkin sem við fáum á okkur eru ódýr. Það er erfitt að vinna leik þegar þú færð á þig tvö mörk. Þetta eru mun betri leikir og margt til að byggja á, en að sjálfsögðu erum við ekki ánægðir með að tapa.“

Ísland er fallið úr A-deildinni í Þjóðadeildinni en Ragnar var lítið að velta því fyrir sér. 

„Ég skil ekki þessa keppni, en ég held þetta skipti ekki höfuðmáli fyrir okkur. Ég skil ekkert í þessu hvort eð er,“ sagði hreinskilinn Ragnar Sigurðsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert