„Ekki harka af þér höfuðhögg“

Heiðrún Sara Guðmundsdóttir.
Heiðrún Sara Guðmundsdóttir. Ljósmynd/Skjáskot

KSÍ og ÍSÍ hafa í samstarfi hafið herferð til þess að auka fræðslu um hvað höfuðhögg í íþróttum getur haft alvarlegar afleiðingar.

Í dag birtist fyrsta myndskeiðið þar sem Heiðrún Sara Guðmundsdóttir sagði sögu sína. Hún æfði fótbolta frá 10 ára aldri en fékk slæmt höfuðhögg í leik árið 2014 og reyndi að harka það af sér. Aðeins fimm mínútum seinna fékk hún afar þungt högg sem gerði það að verkum að hún rotaðist.

„Ég var rúmliggjandi í tvær vikur með svima, ógleði, hljóðfælni og ljósfælni. Ég spilaði ekki næsta leikinn minn fyrr en eftir tvö ár,“ sagði Heiðrún. Hún sér eftir því að hafa ekki tekið betur á hlutunum.

„Ég var alltaf að reyna að harka af mér, reyna að mæta á æfingu. Ef ég hefði tekið þessu alvarlega og tekið alveg pásu þar til ég væri orðin góð þá er ég viss um að þetta hefði ekki jafn mikil áhrif á mig í dag,“ segir Heiðrún og sendir skýr skilaboð að lokum:

„Ekki harka af þér höfuðhögg.“

Einnig hafa verið gerð fræðslumyndskeið eins og þetta sem sjá má hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert