Dagný spilar með Portland á nýjan leik

Dagný Brynjarsdóttir í síðasta landsleik sínum gegn Tékkum.
Dagný Brynjarsdóttir í síðasta landsleik sínum gegn Tékkum. Ljósmynd/Pavel Jirik

Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, mun leika með Portland Thorns í bandarísku atvinnumannadeildinni á komandi leiktíð. Þetta kemur fram á Oregonlive.com í dag. 

Dagný þekkir vel til hjá félaginu því hún lék 31 leik og skoraði fimm mörk fyrir Portland á árunum 2016 og 2017 og varð bandarískur meistari með liðinu seinna árið. Dagný lék ekki með Portland á síðustu leiktíð þar sem hún varð ófrísk.

Hún lék síðast í 1:1-jafntefli íslenska landsliðsins við Tékkland í október 2017, þar sem hún skoraði einmitt mark Íslands. Dagný æfði með Selfossi síðasta sumar en kom ekkert við sögu hjá liðinu í Pepsi-deildinni. 

Dagný er ein fremsta knattspyrnukona landsins og hefur hún skorað 22 mörk í 76 landsleikjum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert