Þrennan kemur vonandi síðar

Elín Metta Jensen skoraði bæði mörk Íslands í leiknum gegn …
Elín Metta Jensen skoraði bæði mörk Íslands í leiknum gegn Skotlandi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hin 23 ára gamla Elín Metta Jensen úr Val skoraði bæði mörk Íslands í 2:1 sigri gegn Skotum í vináttuleik sem háður var á La Manga á Spáni í dag.

Elín Metta hefur þar með skorað tíu mörk fyrir A-landsliðið en hún lék í dag sinn 37. landsleik.

„Við hefðum ekki getað beðið um betri byrjun á árinu. Það tók okkur fyrri hálfleikinn að fínstilla okkur. Spennustigið var kannski aðeins of hátt en þetta gekk allt betur hjá okkur í seinni hálfleiknum. Það kom miklu meira flæði í okkar leik,“ sagði Elín Metta, sem skoraði fyrra markið á 48. mínútu og bætti svo við öðru á 53. mínútu áður en Skotum tókst að laga stöðuna með síðustu spyrnu leiksins.

„Við náðum að létta pressunni af okkur með þessum tveimur mörkum í byrjun seinni hálfleiksins,“ sagði Elín Metta.

Spurð út í mörkin hennar sagði Elín:

„Þetta voru bara tvo flott mörk. Ég skoraði þau bæði innan vítateigsins með viðstöðulausum skotum. Ég fékk góða sendingu frá Berglindi Björgu í seinna markinu. Það er alltaf gaman að skora mörk og gaman að byrja landsliðsárið svona. Það er auðvitað markmiðið að skora fleiri mörk með landsliðinu. Ég fékk tækifæri að ná þrennunni en þetta fer bara í reynslubankann og þrennan kemur vonandi síðar.

Það var virkilega gaman að spila þennan leik við toppaðstæður. Við fengum góða hvatningu frá eitthvað um fimmtíu Íslendingum sem voru á leiknum og við fundum góða strauma frá þeim. Þeir létu vel í sér heyra og tóku meira að segja lagið í lokin. Þótt þetta hafi hafi verið vináttuleikur þá gefa svona sigrar liðinu aukið sjálfstraust og við getum vonandi byggt ofan á þetta,“ sagði Elín Metta.

Byrjunarlið Íslands í leiknum gegn Skotlandi í dag.
Byrjunarlið Íslands í leiknum gegn Skotlandi í dag. Ljósmynd/KSÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert