Eigum að slást við Svía um efsta sætið

Guðbjörg Gunnarsdóttir í baráttu um boltann í síðasta mótsleik gegn …
Guðbjörg Gunnarsdóttir í baráttu um boltann í síðasta mótsleik gegn Svíum sem var í 8-liða úrslitum EM árið 2013. AFP

„Við eigum að setja þá kröfu að við séum að slást við Svíþjóð um efsta sætið,“ segir Guðbjörg Gunnarsdóttir, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, sem verið hefur varafyrirliði landsliðsins síðustu ár, um riðil Íslands í undankeppni EM sem hefst í haust.

Ísland var í 2. styrkleikaflokki þegar dregið var í riðla í dag og dróst í riðil með Svíþjóð, Ungverjalandi, Slóvakíu og Lettlandi. Ísland vann Svíþjóð síðast þegar liðin mættust en það var í Algarve-bikarnum fyrir fimm árum. Á EM 2013 mættust liðin í 8-liða úrslitum þar sem Svíþjóð fagnaði 4:0-sigri á heimavelli:

„Það var bara straujun. Ég held að við höfum bara verið orðnar sáttar með okkar en þær voru á heimavelli og skoruðu eftir þrjár mínútur eða eitthvað,“ segir Guðbjörg við mbl.is.

„Við höfum alveg unnið Svíþjóð en ég man ekki eftir að hafa unnið þær í mótsleik. Sama var þó að segja um Þýskaland þar til í síðustu undankeppni. En þær sænsku hafa reynst okkur erfiðar, það hefur hentað okkur betur að mæta Noregi eða Danmörku til dæmis. Þetta er eitthvað sem við þurfum að breyta,“ segir Guðbjörg sem var nýbúin að spjalla við tvo verðandi andstæðinga sína úr sænska landsliðinu, á æfingu Djurgården, þegar mbl.is heyrði í henni.

Ungverjaland og Slóvakía svipuð að styrkleika

Efsta lið riðilsins fer beint á EM og góð stigasöfnun getur einnig skilað liðinu í 2. sæti beint á mótið, sem fram fer í Englandi í júlí 2021. Þrjú lið af níu með bestan árangur í 2. sæti komast beint á EM en hin sex liðin leika í umspili um þrjú laus sæti. Ísland hefur um langt árabil verið stalli ofar en Ungverjaland og Slóvakía, og Lettland er svo lakasta liðið í riðlinum.

„Ég myndi alveg tippa á að Ungverjaland og Slóvakía séu mjög svipuð að styrkleika. Slóvakía var vel spilandi lið þegar við mættum þeim [í 2:0-sigri í vináttulandsleik í apríl 2017], sérstaklega sóknarlega. Þetta eru klárlega leikir sem við eigum að vinna en það er alls ekki gefins. Liðin sem eru í sætum 30-50 á FIFA-listanum eru orðin mikið betri en fyrir tíu árum. Það verða engar Færeyja-tölur í þessum leikjum, ekki séns,“ segir Guðbjörg en Ísland vann Færeyjar 5:0 og 8:0 í síðustu undankeppni HM.

„Lettland er eina liðið sem ég hef ekki spilað á móti svo ég get ekki tjáð mig um það lið núna og þekki raunar engan leikmann þaðan,“ bætir Guðbjörg við, og það er alveg ljóst að hún setur stefnuna til Englands:

Kominn tími á að breyta sögu leikjanna við Svía

„Ef að við náum ekki 1. sæti þá eigum við að ná 2. sæti og fara að minnsta kosti í umspil, en mér finnst alls ekki óraunhæft að stefna á efsta sætið. Við vorum með efsta sætið í HM-undankeppninni fram í síðustu tvær umferðirnar. Það er alls ekki ólíklegt að þetta verði úrslitaleikir á milli okkar og Svíþjóðar og það er kominn tími á að breyta sögunni í leikjum okkar við Svíana.“

Guðbjörg er ekki í landsliðshópnum sem keppir í Algarve-bikarnum í næstu viku en hún hefur farið á mótið síðustu 12 ár í röð. Guðbjörg er að jafna sig eftir hásinaraðgerð og segir bataferlið hafa gengið vel. Hún sé byrjuð að æfa og jafnt og þétt sé hún að auka við æfingaálagið. Hún vonast til að geta æft af fullum krafti innan mánaðar og verið með í 1. umferð sænsku úrvalsdeildarinnar 14. apríl.

Guðbjörg Gunnarsdóttir hefur varið mark Íslands í þremur lokakeppnum EM …
Guðbjörg Gunnarsdóttir hefur varið mark Íslands í þremur lokakeppnum EM og setur stefnuna á fjórða mótið í Englandi 2021. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert