Óánægja með völlinn sem ætlaður er fyrir ruðning

Cristiano Ronaldo og félagar í portúgalska landsliðinu voru síðastir til …
Cristiano Ronaldo og félagar í portúgalska landsliðinu voru síðastir til að fagna sigri á Estadi Nacional í Andorra. Það hefur reynt verulega á þolrif andstæðinganna að spila á vellinum síðustu ár þó að lið Andorra sé mjög lágt skrifað. AFP

Miðað við úrslit síðustu tveggja ára á Ísland snúið verkefni fyrir höndum í fyrsta leik sínum í undankeppni EM karla í knattspyrnu þegar liðið sækir Andorra heim á föstudagskvöld.

Andorra leikur heimaleiki sína á Estadi Nacional en fyrsti leikurinn fór þar fram í september árið 2014. Leikvangurinn var byggður til að þjóna landsliðum Andorra í bæði fótbolta og ruðningi, og er völlurinn lagður gervigrasi sem þykir ekki það besta fyrir knattspyrnumenn, að sögn íþróttafréttamanns í Andorra sem mbl.is ræddi við:

„Það var ákveðið að gera völl fyrir bæði fótbolta og ruðning, svo fótboltamennirnir voru ekki beinlínis ánægðir með þá tegund gervigrass sem var valin.“

Landsliðsmenn Andorra í fótbolta hafa hins vegar náð að búa til ákveðið heimavallarvígi á Estadi Nacional, þar sem andstæðingunum reynist afar erfitt að koma boltanum í netið hjá liði sem þó er í 132. sæti heimslistans. Eftir 35 töp á heimavelli í röð hefur Andorra aðeins tapað einum af síðustu sex mótsleikjum sínum á heimavelli, og það var gegn Evrópumeisturum Portúgals, 2:0.

Andorra gerði markalaust jafntefli við Færeyjar í mars 2017 og vann svo sinn fræknasta sigur frá upphafi um sumarið, 1:0 gegn Ungverjalandi, en báðir leikirnir voru í undankeppni HM í Rússlandi. Í Þjóðadeildinni í fyrrahaust gerði liðið 1:1-jafntefli við bæði Kasakstan og Georgíu og svo markalaust jafntefli við Lettland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert