„Svona eru reglur UEFA“

Koldo Álvarez, þjálfari Andorra.
Koldo Álvarez, þjálfari Andorra.

„Leikurinn við Ísland verður leikur þar sem andstæðingur okkar verður meira með boltann en okkur líður þægilega á heimavelli og við erum tilbúnir að verjast,“ sagði Koldo Álvarez, þjálfari Andorra, í gærkvöld fyrir leikinn við Ísland í undankeppni EM í knattspyrnu í kvöld.

Andorra hefur átt fínu gengi að fagna á heimavelli síðustu misseri og aðeins tapað einum af síðustu sex leikjum sínum þar. Liðið gerði jafntefli í öllum þremur heimaleikjum sínum í Þjóðadeildinni í haust, gegn Kasakstan, Georgíu og Lettlandi.

„Við reynum að halda sömu einbeitingu og krafti og í Þjóðadeildinni og bæta við þessi góðu úrslit sem við höfum náð. Við vitum samt mjög vel hverjum við erum að fara að mæta; virkilega góðu liði á evrópskan mælikvarða. Íslendingar hafa mikil gæði og við vitum það, þó að úrslitin undanfarið hafi ekki verið góð og ættu að vera betri miðað við þeirra leik. En þeir náðu jafntefli við heimsmeistarana í Frakklandi í vináttulandsleik í október,“ sagði Koldo, sem hefur stýrt Andorra frá árinu 2010, og nefndi Gylfa Þór Sigurðsson sem sérstaklega erfiðan andstæðing fyrir Andorra.

Erik Hamrén talaði fyrr í dag um það á blaðamannafundi að hann teldi ekki við hæfi að leikir í undankeppni EM væru spilaðir á gervigrasi. Mbl.is spurði Koldo út í þau ummæli:

„Svona eru reglur UEFA, það má spila á gervigrasi. Svona er völlurinn og þar fer leikurinn fram. Ég myndi gjarnan vilja hafa náttúrulegt gras og bestu aðstæður en það er ekki hægt úr þessu og við ætlum ekki að eyða tíma í að velta þessu fyrir okkur,“ svaraði þessi fyrrverandi landsliðsmarkvörður Andorra.

Leikur Andorra og Íslands hefst kl. 19.45 að íslenskum tíma, eða klukkan 20.45 að staðartíma og verður lýst beint á mbl.is þar sem viðtöl koma jafnframt inn fljótlega eftir að leik lýkur.

Gervigrasvöllurinn á Estadi Nacional er ekki eins og best verður …
Gervigrasvöllurinn á Estadi Nacional er ekki eins og best verður á kosið. mbl.is/Sindri
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert