Þór/KA skoraði sex mörk í fyrri hálfleik

Stephany Mayor gerði tvö marka Þórs/KA í dag.
Stephany Mayor gerði tvö marka Þórs/KA í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Tveir leikir fóru fram í A-deild kvenna í Lengjubikarnum í knattspyrnu í dag. Þór/KA vann 6:0 stórsigur á Selfossi í Boganum á Akureyri og þá hafði Breiðablik betur gegn ÍBV í Fífunni, 3:0.

Fyrir norðan voru öll mörkin sex skoruð í fyrri hálfleik. Stephany Mayor kom heimakonum yfir úr vítaspyrnu á 14. mínútu áður en Margrét Árnadóttir bætti við marki fimm mínútum síðar. Arna Sif Ásgrímsdóttir skoraði þriðja markið á 27. mínútu og mínútu síðar var staðan orðin 4:0 eftir mark frá Karenu Maríu Sigurgeirsdóttir. Þær Mayor og Arna Sif bættu svo við sitthvoru markinu fyrir hlé til að tryggja stórsigurinn.

Í Fífunni í Kópavogi var það Alexandra Jóhannsdóttir sem skoraði fyrsta og síðasta mark Blika, á 15. mínútu og síðan á 82. mínútu, en þar á milli gerði Hildur Antonsdóttir eitt mark skömmu eftir hálfleik. Breiðablik er í öðru sæti í A-deildinni með níu stig eftir fjóra leik og Þór/KA er í þriðja sæti með sjö stig. ÍBV og Selfoss eru bæði á botninum, enn án stiga, en Eyjakonur hafa leikið þrisvar og Selfyssingar fjórum sinnum.

Valur, Breiðablik og Þór/KA eru komin í undanúrslit mótsins og fjórða liðið verður Stjarnan eða ÍBV.

Markaskorarar fengnir af Úrslit.net.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert