Verðum að gera enn betur gegn Íslandi

Hugo Lloris á blaðamannafundi í París í dag.
Hugo Lloris á blaðamannafundi í París í dag. AFP

Hugo Lloris, markvörður og fyrirliði Frakklands, segir ljóst að Frakkar eigi fyrir höndum erfiðan leik við Ísland annað kvöld í undankeppni EM í knattspyrnu.

Lloris svaraði blaðamönnum á fundi á Stade de France í dag og var spurður hvort búast mætti við svipuðum leik á morgun og í 2:2-jafnteflinu við Ísland í vináttulandsleik í október:

„Í þetta sinn er um mótsleik að ræða og við ætlum okkur að enda efstir í riðlinum. Stundum spilar maður ekki eins vel og maður getur. Þjálfarinn gaf öðrum leikmönnum tækifæri til að sýna hvað þeir geta með franska landsliðinu í þessum leik. Á morgun er öðruvísi leikur. Við ætlum okkur ekkert annað en sigur og þrjú stig,“ sagði Lloris. Frakkland hóf undankeppnina á 4:1-sigri í Moldóvu á föstudaginn, á sama tíma og Ísland vann Andorra 2:0.

„Við verðum að vera enn betur gíraðir núna en gegn Moldóvu því andstæðingurinn er það góður. Þeir eru góðir í föstum leikatriðum, kraftmiklir, og við verðum að hafa varann á. Við munum fá að hafa boltann, þeir verjast mikið, en við verðum að vera vel samstilltir og gera allt okkar besta. Íslenska liðið er á hærra stigi en lið Moldóvu. Þetta eru mjög kappsfullir andstæðingar,“ sagði Lloris sem vildi ekki gera of mikið úr mikilvægi leiksins í baráttunni um sæti á EM 2020:

„Það eru allir leikir mikilvægir í svona keppni, ekki síst gegn liði sem ætlar sér það sama og við. Ísland byrjaði keppnina vel og við verðum að standa okkur vel á morgun. Leikurinn á morgun ræður ekki úrslitum um neitt en við ætlum okkur efsta sætið og komast á EM eins fljótt og hægt er,“ sagði Lloris.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert