Högg í magann

Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, var sár og svekktur eftir tap …
Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, var sár og svekktur eftir tap sinna manna gegn ÍA í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var högg í magann að fá á sig mark svona undir restina,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 1:0-tap liðsins gegn ÍA í toppslag 5. umferðar úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Kópavogsvelli í kvöld.

„Við gáfum þeim of mörg föst leikatriði og þeir eru hættulegir þar. Við stoppuðum flestallar skyndisóknir þeirra í leiknum og lágum vel á þeim síðasta kortérið. Ég var ánægður með liðið mitt í dag og spilamennskuna, við létum boltann ganga vel á milli manna, en því miður þá fáum við ekkert út úr leiknum og það er erfitt að kyngja því.“

Blikar voru meira með boltann í leiknum en tókst ekki að skapa sér afgerandi marktækifæri.

„Það er erfitt að koma sér í gegnum fimm manna varnarmúr en við skorum samt sem áður mark og fengum tvö til þrjú ágætismörk. Við fengum fá færi á okkur og heilt yfir var þetta lokaður leikur. Að lokum var það fast leikatriði sem kláraði leikinn og við fengum á okkur nokkrar hornspyrnur og aukaspyrnur í dag sem þeir nýttu sér á endanum. Skaginn er með hörkulið og gott leikplan og þeir eru góðir í að setja andstæðinga sína út af laginu og eiga fyllilega skilið að vera á toppnum.“

Ágúst vill ekki meina að Skagamenn hafi ýtt leikmönnum Breiðabliks út úr eigin leikplani.

„Mér fannst við spila boltanum mjög vel á milli manna en leikurinn spilaðist nákvæmlega eins og við áttum von á. Það var mikil barátta og jafntefli hefði kannski verið sanngjörn niðurstaða en því miður fengum við ekkert út úr leiknum hér í kvöld,“ sagði Ágúst Gylfason í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert