Þeir áttu engin svör

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, var að vonum sáttur með …
Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, var að vonum sáttur með sigur sinna manna gegn Breiðabliki í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við fengum akkúrat það sem við ætluðum okkur út úr þessum leik,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, í samtali við mbl.is eftir 1:0-sigur liðsins gegn Breiðabliki í toppslag 5. umferðar úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Kópavogsvelli í kvöld.

„Hlutirnir gengu vel upp hjá okkur í kvöld og við vorum þéttir til baka. Að vera þéttur til baka gegn liði eins og Breiðabliki þýðir að þú þarft að leggja mikla vinnu á þig í varnarfærslunum og strákarnir lögðu mikið á sig til þess að loka á Blikana. Það dugar að skora eitt mark þegar þú heldur markinu þínu hreinu og það var hrikalega ljúft að sjá boltann í netinu undir restina.“

Skagamenn voru sterkari aðilinn í leiknum og Blikar áttu fá svör við þéttum varnarleik Akurnesinga.

„Ég held að þeir hafi ekki fengið neitt færi í leiknum en að sama skapi vorum við mjög grimmir. Við  vissum það fyrir fram að ef við myndum loka vel á þá á miðsvæðinu myndu þeir fara í að negla boltanum fyrir markið af köntunum og við vörðumst því mjög vel. Þegar allt kemur til alls höfðu þeir engin svör gegn þéttum varnarleik okkar.“

Skagamenn sitja einir á toppi deildarinnar með 13 stig en liðið hefur lagt Val, FH og Breiðablik að velli í síðustu þremur leikjum sínum.

„Það er erfitt að segja að gengi okkar hingað til hafi verið vonum framar. Við vitum það sjálfir að við getum unnið hvaða lið sem er í deildinni, þegar allt gengur upp hjá okkur. Strákarnir hafa trú á því sem við erum að gera og fara alltaf inn í öll verkefni með það að leiðarljósi að við getum unnið hvaða andstæðing sem er og við munum halda áfram að taka einn leik fyrir í einu,“ sagði Jóhannes Karl í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert