150 þúsund evra boð heillaði ekki Alfreð

Alfreð Finnbogason hefur komið víða við á sínum ferli og …
Alfreð Finnbogason hefur komið víða við á sínum ferli og skorað urmul af mörkum. AFP

„Fótboltinn, eins og alls staðar þar sem peningur er, getur verið svolítið skítugur heimur þar sem menn eru að fá borgað hér og þar,“ segir Alfreð Finnbogason, landsliðsframherji í knattspyrnu, í viðtali við Hjörvar Hafliðason í hlaðvarpsþættinum Dr. Football.

Alfreð er í löngu viðtali í þættinum þar sem farið er yfir hans farsæla feril sem markaskorari. Talið berst meðal annars að því hvernig leikmenn velji sér umboðsmenn og hvort það skipti máli hvaða umboðsmenn þeir séu með upp á það við hvaða félag þeir semji á hverjum tíma:

„Ég held að það skipti mjög miklu máli. Það er svolítið skrýtið að vera leikmaður. Maður setur alla ábyrgðina á einhvern einstakling um að hafa samskipti við lið og koma manni á framfæri. Þetta er gríðarleg ábyrgð. Umboðsmenn, eins og lögmenn og allir, eru misgóðir og misvel tengdir. Fótboltinn, eins og alls staðar þar sem peningur er, getur verið svolítið skítugur heimur þar sem menn eru að fá borgað hér og þar. Það eru ótrúlega miklir peningar í fótbolta og eðlileg viðskiptarök stjórna oft ekki „fótbolta-transfers“. Maður hefur heyrt ótrúlegar sögur. En í grunninn held ég að maður fái alltaf að spila á því stigi sem maður á skilið sem leikmaður. Það er enginn sem fær ekki að fara til Real Madrid af því að hann var ekki með nógu góðan umboðsmann, ef hann er nógu góður,“ segir Alfreð.

Þáði í mesta lagi máltíð

Alfreð tekur undir að margir umboðsmenn hafi reynt að fá hann til liðs við sig, boðið honum að koma að hitta sig og reynt ýmislegt til að fá hann sem skjólstæðing:

„Ég þáði aldrei neitt, nema kannski máltíð. Það voru margir sem buðust til að borga flugið og hótelið en ég sagði bara nei við því. Ég vil ekki vera í einhverri skuldbindingu gagnvart einhverjum og að það hafi áhrif á ákvörðun mína. Það var til dæmis einn sem bauð mér 150 þúsund evrur ef ég myndi skrifa undir. Hann sagðist vera með öruggan klúbb fyrir mig í sumar. Ég sagði á endanum nei við þessu. Ég veit ekki hvers lags byrjun á samstarfi það er ef þú þiggur pening frá einhverjum, mjög háa upphæð. Þá ertu í ákveðinni skuld við þann einstakling,“ segir Alfreð. Hjörvar hlær og bendir á að hann myndi ekki hugsa sig tvisvar um ef í boði væri að fá 150 þúsund evrur, sem í dag jafngildir rúmlega 20 milljónum króna, en Alfreð leist ekki vel á tilboðið: „Það var ekki mjög heillandi.“

Hægt er að hlusta á allt viðtalið með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert