Keflavík áfram efst - Fjölnir og Þróttur unnu

Spánverjinn Esteve Monterde og Jóhann Árni Gunnarsson í baráttunni í …
Spánverjinn Esteve Monterde og Jóhann Árni Gunnarsson í baráttunni í Mosfellsbæ í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Fjölnir og Þróttur R. bættu þremur stigum í sarpinn í 1. deild karla í fótbolta í kvöld en Keflavík og Njarðvík gerðu markalaust jafntefli í Reykjanesbæjarslagnum.

Fjölnismenn unnu Aftureldingu 3:1 í grannaslag í Mosfellsbæ. Staðan var 1:1 í hálfleik eftir að Bergsveinn Ólafsson og Róbert Orri Þorkelsson skoruðu sitt markið hvor. Albert Brynjar Ingason skoraði sitt fimmta mark í sumar og það þriðja í deildinni þegar hann kom Fjölni yfir um miðjan seinni hálfleik. Kristófer Óskar Óskarsson bætti svo við marki á 81. mínútu, rétt eftir að hafa komið inn á sem varamaður, en það var hans fyrsta mark á nýhöfnum ferli í meistaraflokki.

Eftir sigurinn eru Fjölnismenn með 9 stig, stigi á eftir toppliði Keflavíkur sem eins og fyrr segir gerði markalaust jafntefli við Njarðvík sem er í 4. sæti með 7 stig. Víkingur Ó. getur jafnað Keflavík að stigum með sigri á Þór í Ólafsvík annað kvöld, en Þórsarar eru með 6 stig.

Þróttarar eru í 6. sæti með 4 stig eftir 4:2-sigur á Haukum í Hafnarfirði. Haukar komust yfir strax á 2. mínútu með marki Seans De Silva sem vann boltann af varnarmanni. Þrjú mörk litu svo dagsins ljós á þremur mínútum. Ágúst Leó Björnsson jafnaði metin fyrir Þrótt í kjölfarið á hornspyrnu á 19. mínútu, De Silva kom Haukum yfir á nýjan leik með fallegu skoti í stöng og inn, en Lárus Björnsson jafnaði metin fyrir Þrótt með sínu fyrsta marki í meistaraflokki. Þróttur komst svo yfir skömmu síðar með langskoti Jaspers Van Der Heyden sem Óskar Sigþórsson hefði átt að sjá við í marki Hauka.

Van Der Heyden skoraði fjórða mark Þróttar og sitt annað mark um miðjan seinni hálfleik. Haukar eru því í fallsæti með 2 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert