Stefn­um alltaf á titil­inn í Vest­ur­bæn­um

Pálmi Rafn Pálmason.
Pálmi Rafn Pálmason. mbl.is/Árni Sæberg

Pálmi Rafn Pálmason, fyrirliði KR, var sigurreifur eftir frábæran 3:2-sigur á Íslandsmeisturum Valsara í 9. umferð Pepsi Max-deildarinnar í Vesturbænum í kvöld. KR-ingar lentu 2:0 undir í kvöld en sneru taflinu við í stórskemmtilegum leik.

„Það eru svakaleg gæði í þessu Valsliði þó að sjálfstraustið sé ekki í botni hjá þeim þessa dagana. Við vissum að við mættum ekki gefa þeim minnsta möguleika á að refsa okkur en þeir gerðu það tvisvar. Sem betur fer erum við líka með það mikil gæði að við náum að koma til baka og vinna þennan leik,“ sagði Pálmi við mbl.is strax að leik loknum.

KR-ingar létu ekki bilbug á sér finna þrátt fyrir að lenda tveimur mörkum undir og héldu áfram að keyra stíft á Valsliðið, vitandi að meistararnir væru brothættir eftir erfitt sumar. „Við keyrðum á þá í fyrri hálfleik líka fannst mér og höldum því bara áfram í seinni hálfleik og neglum á þá hvað eftir annað, það skilaði sér.“

„Við erum góðir núna en það gefur okkur ekki neitt að halda að við séum að fara vinna þetta. Við þurfum að reyna halda áfram að spila svona, ef við náum að skila svona frammistöðum og sýna gæðin okkar þá getum við unnið leiki. En það gefur okkur ekkert að tala bara um það, þá getum við gleymt einhverjum titlum og einhverju svoleiðis. Við ætlum bara að halda þessu áfram og svo vitum við aldrei hvað gerist, það er alltaf stefnt á titil hér í Vesturbænum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert