Blikar björguðu sigri í ótrúlegum leik

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Breiðabliki, með skot að marki HK/Víkings í …
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Breiðabliki, með skot að marki HK/Víkings í kvöld en Arna Eiríksdóttir er til varnar. mbl.is/Hari

Breiðablik jafnaði Val að stigum á toppi Pepsi Max-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld eftir afskaplega nauman 2:1-sigur á HK/Víkingi á Kópavogsvelli í kvöld. Blikar áttu alls 28 tilraunir að marki og það var hreint ótrúlegt að liðið hafi ekki skorað fleiri mörk, en sigurmarkið kom nánast með síðustu spyrnu leiksins.

Fyrri hálfleikur var vægast sagt algjör einstefna, eins og nánast allur leikurinn. Breiðablik komst yfir strax á þriðju mínútu, en eftir sendingu Öglu Maríu Albertsdóttur varð Arna Eiríksdóttir fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Staðan 1:0, martraðarbyrjun gestanna.

Breiðablik átti alls 14 skot að marki í fyrri hálfleik einum, þar af átta á rammann, en Audrey Baldwin var mögnuð í marki HK/Víkings og bjargaði oft frábærlega. Þrátt fyrir yfirburðina gátu Blikakonur verið svekktar að vera aðeins 1:0 yfir í hálfleik og staðan langt frá því að vera örugg.

Yfirburðir Blika héldu áfram eftir hlé, en það vantaði þó ávallt að reka smiðshöggið á sóknirnar. Það var því alltaf ákveðinn taugatitringur í Blikaliðinu að ná ekki að gera út um leikinn. Og það var hreint með ólíkindum hvað illa gekk fyrir framan markið.

Blikar áttu tvö skot í þverslá um miðbik síðari hálfleiks og Baldwin bjargaði öðru sem kom á markið. Það var því þvert gegn gangi leiksins þegar HK/Víkingur jafnaði metin tíu mínútum fyrir leikslok. Svanhildur Ylfa Dagbjartsdóttir skoraði þá með góðu skoti í stöng og inn úr vítateignum og Blikar trúðu vart eigin augum. Staðan orðin 1:1 en á þessum tímapunkti höfðu Blikar átt 25 marktilraunir hinum megin.

Blikarnir reyndu allt hvað þeir gátu að ná inn sigurmarki. Allt virtist stefna í jafntefli en Agla María skoraði með nánast síðustu spyrnu leiksins utan teigs, tryggði Blikum 2:1 sigur og dramatíkin gríðarleg. Breiðablik er nú með 21 stig, fullt hús, eftir sjö leiki eins og Valur. HK/Víkingur er með sex stig í næst neðsta sæti.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is. Viðtöl koma svo inn á vefinn hér síðar í kvöld.

Breiðablik 2:1 HK/Víkingur opna loka
90. mín. Þórhildur Þórhallsdóttir (HK/Víkingur) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert