Stórsigur Keflavíkur á Stjörnunni

Natasha Anasi skoraði eitt marka Keflavíkur í kvöld.
Natasha Anasi skoraði eitt marka Keflavíkur í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í 8. umferð í Pepsi Max deild kvenna mættust Keflavík og Stjarnan á Nettóvellinum í Keflavík í kvöld. Fyrir leik var Keflavík á botninum með 3 stig en Stjarnan í 6. sæti deildarinnar með 9 stig.

Keflavík fékk draumabyrjun því strax á 3. mínútu skoraði Sophie Groff fyrsta mark leiksins, en eftir að hafa skotið í stöng þá skallaði hún boltann viðstöðulaust í netið. Það var svo á 16. mínútu sem að markamaskína Keflavíkur, Sveindís Jane Jónsdóttir, skoraði laglegt mark eftir gott spil Keflavíkur fram hægri kantinn. Það sem leið fram að hálfleik réðu Keflavíkurkonur ferðinni og Stjörnukonur voru heillum horfnar.

Keflavíkurkonur komu grimmar í seinni hálfleik og eftir aðeins mínútu voru þær búnar að bæta í þegar Natasha Anasi skoraði þriðja mark leiksins. Á 65. mínútu bætti Dröfn Einarsdóttir í sarpinn eftir fínt uppspil frá Sveindísi og fjórum mínútum síðar bætti Sophie Gross við sínu öðru marki og staðan 5:0. Stjarnan náði aldrei neinu risi í þessum leik en að sama skapi spilaði Keflavík gríðarlega vel og í raun bjargaði Birta Guðlaugsdóttir markmaður Stjörnunnar tvisvar sinnum meistaralega vel og kom í veg fyrir enn meiri niðurlægingu.

Eftir sigurinn er Keflavík komin úr fallsæti, með 6 stig en betri markatölu en HK/Víkingur. KR er neðst með 4 stig. Stjarnan er í 5. sæti með 9 stig.

Keflavík 5:0 Stjarnan opna loka
90. mín. Leik lokið Verðskuldaður sigur Keflavíkur hér í kvöld.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert