Legg hjartað og sálina í verkefnið

Ian Jeffs fær það verðuga verkefni að bjarga Eyjamönnum frá …
Ian Jeffs fær það verðuga verkefni að bjarga Eyjamönnum frá falli. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Þetta leggst vel í mig og ég er spenntur að fá tækifæri til þess að takast á við þetta krefjandi verkefni,“ sagði Ian Jeffs, nýráðinn knattspyrnuþjálfari ÍBV, í samtali við mbl.is í dag. Jeffs tekur við liðinu af Pedro Hipólito sem var rekinn fyrr í þessum mánuði en Andri Ólafsson, fyrrverandi fyrirliði ÍBV, mun verður aðstoðarmaður Jeffs.

„Ég stýrði liðinu um síðustu helgi og það gekk ágætlega, þrátt fyrir að úrslitin hafi ekki dottið með okkur í þeim leik. Ég og Andri munum vinna þetta saman og þetta er vissulega spennandi verkefni fyrir okkur. Ég mun gera mitt besta og það er ekki hægt að segja að ég finni fyrir einhverju stressi. Við munum taka einn leik fyrir í einu og markmiðið er að byggja ofan á þá jákvæðu hluti sem við sýndum í KR-leiknum og reyna safna stigum í hús. Við erum í erfiðri stöðu en við ég og Andri munum leggja hjarta og sál í þetta verkefni.“

Ian Jeffs vonast til þess að Eyjamenn muni bæta við sig miðverði í félagskiptaglugganum sem nú er opinn en hann á ekki von á fleiri styrkingum til Vestmannaeyja.

„Eins og staðan er í dag er þetta hópurinn sem við munum vinna með. Við bindum vonir við það að við getum bætt við okkur nýjum miðverði eins og við höfum áður gefið út en annars ég ég ekki von á neinum stórum breytingum. Við erum að leita á fullu og ég á von á því að þau mál muni skýrast fljótlega eftir helgi,“ sagði Jeffs.

Þá ítrekaði Ian Jeffs, sem er aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins, að störf hans hjá ÍBV myndu ekki trufla hann við störf sín innan KSÍ en hann mun fá frí hjá ÍBV, mánaðarmótin ágúst/september, til að sinna landsliðsverkefni kvennalandsliðsins og mun Andri Ólafsson því stýra liðinu gegn Val í 19. umferð deildarinnar þann 1. septrember næstkomandi þegar liðin mætast á Hásteinsvelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert