Færanýtingin reyndist dýr í Víkinni

Örvar Eggertsson, Víkingi, með Fylkismanninn Ara Leifsson í bakinu í …
Örvar Eggertsson, Víkingi, með Fylkismanninn Ara Leifsson í bakinu í leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór

Víkingur og Fylkir skiptu með sér stigunum þegar liðin mættust í 9. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Víkingsvelli í Fossvogi í kvöld í hörkuleik. Leiknum lauk með 1:1-jafntefli en bæði lið fengu frábær færi til þess að skora sigurmarkið.

Leikurinn fór fjörlega af stað og starx á 4. mínútu slapp Erlingur Agnarsson einn í gegn eftir klaufagang í vörn Fylkismanna en hann reyndi að vippa boltanum yfir Stefán Loga í marki Fylkismanna en hann setti of mikinn kraft í skotið sem fór yfir markið. Víkingar stjórnuðu ferðinni eftir þetta og það var því gegn gangi leiksins þegar Geoffrey Castillion kom Fylkismönnum yfir á 17. mínútu með skoti úr markteignum eftir hornspyrnu og staðan orðin 1:0. Eftir þetta tóku Fylkismenn öll völd á vellinum og Kolbeinn Birgir Finnsson fékk algjört dauðafæri til þess að tvöfalda forystu Fylkismanna, átta mínútum síðar, en frír skalli hans úr teignum fór framhjá markinu. Víkingar voru fljótir að refsa því þeir brunuðu upp í sókn, Ágúst Eðvald Hlynsson átti stórkostlega fyrirgjöf frá hægri inn í teiginn á Guðmund Andra Tryggvason sem þrumaði boltanum viðstöðulaust í slánna og inn og staðan orðin 1:1.

Fjórum mínútum síðar átti Halldór Smári Sigurðsson svakalegt skot af 35 metra færi en boltinn í þverslánna. Fylkismenn fengu tvö ótrúleg færi til þess að komast yfir á ný á 37. mínútu þegar Castillion slapp einn í gegn. Þórður Ingason varði meistaralega frá honum af stuttu færi en Valdimar Þór Ingimundarson hirti frákastið en skot hans fyrir nánast opnu marki fór í stöngina og út. Fjórum mínútum síðar átti Örvar Eggertsson frían skalla á markteig en boltinn sleikti söngina og stuttu síðar flautaði Helgi Mikael Jónasson dómari til hálfleiks. Víkingar byrjuðu seinni hálfleikinn betur og Halldór Smári Sigurðsson átti góðan skalla að marki á 53. mínútu sem Daði Ólafsson bjargaði á marklínu. Víkingar héldu áfram að pressa Fylkismenn og áttu nokkrar ágætar skottilraunir en gekk illa að hitta rammann.

Á 61. mínútu fékk Kwame Quee dauðafæri til þess að koma Víkingum yfir en hann var of lengi að athafna sig í teig Fylkismanna og Ólafur Ingi Skúlason bjargaði á síðustu stundu. Sex mínútum síðar fékk Castillion dauðafæri hinumegin á vellinum en hann fór framhjá Þórði í marki Víkinga en markmaðurinn náði að slæma hendi í boltann og bjarga á síðustu stundu. Á 87. mínútu fékk Erlingur Agnarsson að líta sinn annað gula spjald og þar með rautt þegar hann stöðvaði skyndisókn Fylkismanna og eftir þetta fjaraði leikurinn hægt og rólega út og liðin skiptu með sér stigunum. Víkingar fara upp fyrir KA í tíunda sæti deildarinnar í 12 stig og úr fallsæti en Fylkismenn eru áfram í sjöunda sætinu með 16 stig.

Víkingur R. 1:1 Fylkir opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið í Víkinni með 1:1-jafntefli í hörkuleik.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert