Enskur varnarmaður til Eyja

Oran Jackson og Ian Jeffs, þjálfari ÍBV.
Oran Jackson og Ian Jeffs, þjálfari ÍBV. Ljósmynd/ibvsport.is

Eyjamenn hafa náð sér í liðsauka til Englands fyrir baráttuna í seinni umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, en ungur miðvörður, Oran Jackson, er kominn í raðir þeirra frá MK Dons.

Jackson er tvítugur, uppalinn hjá MK Dons og spilaði einn deildarleik með liðinu í ensku B-deildinni tímabilið 2015-16. Hann hefur síðan verið í láni hjá utandeildarliðunum Hemel Hempstead og Brackley Town. Jackson var leystur undan samningi hjá MK Dons í lok síðasta tímabils.

Hann kemur í staðinn fyrir varnarmanninn Gilson Correia frá Gíneu-Bissá sem lék með ÍBV fram að síðustu mánaðamótum en náði sér ekki á strik með liðinu og er farinn frá félaginu.

ÍBV er í erfiðri stöðu á botni deildarinnar, en liðið hefur aðeins fengið fimm stig í fyrstu tólf leikjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert