Erum hundsvekkt með þetta tap

Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Þetta er svekkelsi. Við ætluðum okkur sigur í kvöld og við erum hundsvekkt með þetta tap," sagði Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis, eftir 0:1-tap fyrir Selfossi í undanúrslitum Mjólkurbikars kvenna í fótbolta í kvöld. 

Grace Rapp skoraði sigurmarkið í seinni hálfleik eftir mistök hjá Cecilíu Rán Rúnarsdóttir í marki Fylkis.

„Þær stela útkasti markvarðar og stinga sér inn og skora. Hún er ungur markmaður og gerir mistök. Þetta var eitt af þeim, en hún stóð sig vel í leiknum. Svona einstaklingsmisstök ráða stundum úrslitum, en hún er búin að standa sig frábærlega og vonandi lærir hún af þessu."

Kjartan var ekki hress með sóknarleik síns liðs í leiknum, enda þurfti Kelsey Wys í marki Selfoss ekki að taka á honum stóra sínum. 

„Ég hefði viljað sjá okkur halda boltanum betur niðri í sóknarleiknum, en það vantaði gæði á síðasta þriðjunginn. Við vorum að bíða svolítið eftir því að einhver annar myndi taka við, frekar en að einhver myndi taka á skarið sjálf," sagði Kjartan. 

Kjartan Stefánsson á hliðarlínunni í kvöld.
Kjartan Stefánsson á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert