Örugglega topp fimm

Kolbeinn Birgir Finnsson skoraði fallegt mark í dag.
Kolbeinn Birgir Finnsson skoraði fallegt mark í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kolbeinn Birgir Finnsson var besti maður vallarins í 3:0-sigri Fylkis á ÍBV í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. Fylkismenn voru mikið sterkari aðilinn og var sigurinn sannfærandi. 

„Við vorum góðir og sýndum gæði í þessum leik. Við sýndum hvað við getum, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þetta var aldrei í hættu í dag. Þetta gekk mjög vel í byrjun leiks og þótt það hafi aðeins hægst á okkur í seinni, þá er ég mjög ánægður með spilamennskuna."

Kolbeinn fékk mikið pláss, sérstaklega framan af leik, til að sýna gæðin sín. „ÍBV-menn gáfu mér svolítið mikið pláss í byrjun og þeir voru ráðvilltir í vörninni. Þeir þjöppuðu sér aðeins saman í seinni."

Kolbeinn kom Fylki á bragðið með glæsilegu marki á 12. mínútu. Hann negldi þá boltanum upp í samskeytin utan teigs, nánast úr kyrrstöðu. 

„Ég ætlaði að hamra í boltann og þetta var góð tilfinning. Ég hef örugglega skorað einhver flottari, en þetta er ofarlega, örugglega topp fimm," sagði Kolbeinn kátur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert