Urðum okkur sjálfum að athlægi

Sindri Snær Magnússon.
Sindri Snær Magnússon. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Þetta var bara grín. Við urðum okkur sjálfum að athlægi," sagði ómyrkur Sindri Snær Magnússon í samtali við mbl.is eftir 2:0-tap ÍBV gegn Fylki á útivelli í Pepsi Max-deildinni í fótbolta. Sindri, sem er fyrirliði ÍBV, segir að liðið hafi gefist upp eftir erfiða byrjun. 

„Við ætluðum að byrja leikinn vel en erum gjörsamlega hauslausir, fáum á okkur mark og það má segja að við gefumst upp eftir það, sem er ekki boðlegt. Við þurfum aðeins að skoða fyrir hvaða lið við erum að spila og spila fyrir merkið.

Það er erfitt þegar þú tapar, tapar og tapar. Það eru þeir sterkustu sem koma út úr því og bregðast við mótlæti og við erum ekki að gera það eins og er. Vonandi rífum við okkur upp. Þetta er fimmta eða sjötta leikinn í röð sem við ætlum að gera það í næstu viku."

Sindri sá eitthvað jákvætt við leik ÍBV í leiknum, en ekki var það mikið. 

„Það eru jákvæðir þættir í leiknum. Við fengum fullt af færum til að skora mörkin, en við skoruðum ekki, því miður. Þá skiptir það engu máli. Við verðum að nýta kaflana betur. Við fengum svo á okkur þrjú djöfulsins skítamörk, svo við eigum ekkert skilið í dag."

En hversu nálægt því er ÍBV, sem er með fimm stig og sjö stigum frá öruggu sæti, að falla að mati Sindra? 

„Ég pæli ekki í því. Ég veit ekki hvað liðin fyrir ofan eru með mörg stig. Við erum bara með fimm stig og á meðan við fáum ekki stig, nálgumst við ekki neinn. Við þurfum að fá fullt af stigum í viðbót, en við erum örugglega nálægt því að falla. Þetta er ekki tölfræðilega búið, svo við höldum bara áfram," sagði Sindri Snær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert