HK fór létt með ráðalausa Hafnfirðinga

HK-ingurinn ungi Valgeir Valgeirsson með boltann í Kórnum í kvöld.
HK-ingurinn ungi Valgeir Valgeirsson með boltann í Kórnum í kvöld. mbl.is/Hari

HK gerði sér lítið fyrir og vann sinn þriðja deildarleik í röð þegar FH kom í heimsókn í 13. umferð úrvalsdeildar karla í knattpyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, í Kórinn í Kópavogi í kvöld. Leiknum lauk með 2:0-sigri HK en það voru þeir Emil Atlason og Atli Arnarson sem skoruðu mörk Kópavogsliðsins í leiknum.

Leikurinn fór afar rólega af stað og fyrsta færi leiksins leit ekki dagsins ljós fyrr en á 13. mínútu. Máni Austmann átti þá frábæra fyrirgjöf frá vinstri á Emil Atlason sem renndi sér á boltann en Daði Freyr í marki FH kom út á móti og varð vel frá Emil. Hafnfirðingar voru meira með boltann en tókst ekki að skapa sér afgerandi marktækifæri í fyrri hálfleik. Steven Lennon átti tvo skot að marki sem fóru víðsfjarri og á 31. mínútu átti Hörður Árnason frábæra fyrirgjöf frá vinstri. Máni Austmann flikkaði boltanum á fjærsvæðið þar sem Emil Atlason var mættur og hann skallaði boltann af stuttu færi úr markteignum og staðan orðin 1:0. FH-ingar hresstust lítið við þetta en Brandur Olsen átti þó ágætis marktilraun skömmu síðar þegar hann skaut að marki fyrir utan teig en Arnar varði vel frá honum.

Undir lok fyrir hálfleiks átti Valgeir Valgeirsson frábæran sprett upp hægri kantinn. Hann labbaði framhjá hverjum Hafnfirðingnum á fætur öðrum og kom sér inn í teiginn, þar tók Guðmann Þórisson hann niður og vítaspyrna réttilega dæmd. Atli Arnarson steig á punktinn, sendi Daða Frey í rangt horn og staðan því 2:0 í hálfleik. FH-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og Cédric D-Ulivo átti hörkuskot að marki strax á 46. mínútu sem Arnar varði vel. Stuttu síðar átti Björn Daníel Sverrisson hörkuskalla að marki eftir hornspyrnu en boltinn fór rétt yfir. FH-ingar freistuðu þess að jafna metin á meðan HK-ingar beittu skyndisóknum og Kópavogsliðið átti nokkrar slíkar sem þeim tókst ekki að nýta.

Steven Lennon slapp í gegn á 66. mínútu en Arnar Freyr í marki HK varði vel frá honum úr þröngu færi. Tíu mínútum síðar komst Björn Daníel Sverrisson óvænt upp að vítateig HK-inga eftir vandræðagang á miðsvæði Kópavogsliðsins en skot lúmskt skot hans fór rétt framhjá markinu. FH-ingar reynd hvað þeir gátu að jafna metin en líkt og allan leikinn gekk liðinu hörmulega að skapa sér færi og HK fagnaði sigri. HK er komið í áttunda sæti deildarinnar í 17 stig en FH er áfram í sjötta sætinu með 19 stig.

HK 2:0 FH opna loka
90. mín. Pétur Viðarsson (FH) fær gult spjald Fyrir brot.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert