Það var mjög mikið reiðarslag

Halldór Jón Sigurðsson, Donni, á hliðarlínunni í kvöld.
Halldór Jón Sigurðsson, Donni, á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Halldóra Jón Sigurðsson, eða Donni, viðurkenndi að Fylkir hafi átt sigurinn gegn Þór/KA-liði sínu fyllilega skilið er liðið mættust í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta í kvöld. Lokatölur urði 3:0, Fylki í vil, en um það bil hálft byrjunarlið Þórs/KA var fjarverandi í leiknum vegna meiðsla og landsliðsverkefna. 

„Þetta var eins erfitt og ég bjóst við. Þetta var mjög erfiður leikur og Fylkisliðið er mjög gott og gerði frábærlega í nokkrum færum. Þær hefðu getað skorað enn fleiri en við hefðum líka getað skorað. Við fengum dauðafæri í lokin og tvö önnur góð færi í byrjun. Það hefði kannski breytt einhverju ef það hefði dottið, en það gerði það ekki og Fylkisliðið átti þetta fyllilega skilið," sagði Donni í samtali við mbl.is. 

Hann var ánægður með spilamennskuna í erfiðum aðstæðum. 

„Hún var ágæt miðað við allt. Við vorum með ungt og reynslulítið lið í dag og ég var ánægður með spilamennskuna að mörgu leyti. Við héldum boltanum vel á köflum og sérstaklega í seinni hálfleik. Við komum okkur í góðar leikstöður, en náðum ekki að klára þær. Ég var mest ánægður með að stelpurnar gáfust aldrei upp og það var jákvæðni og flott hugarfar í mínu liði."

Stephany Mayor, einn besti sóknarmaður deildarinnar, og Bianca Sierra, sterkur varnarmaður, voru ekki með Þór/KA í leiknum þar sem þær eru í landsliðsverkefni. Donni vissi ekki fyrir tímabilið að þær myndu yfirgefa liðið á þessum tímapunkti. Fleiri leikmenn voru frá, en Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir verður með liðinu út tímabilið, en hún er að láni frá Kristianstad í Svíþjóð. 

„Ég vissi það ekki og það var mjög mikið reiðarslag. Það er mjög svekkjandi að missa þær. Stephany er langbesti leikmaðurinn í þessari deild að mínu mati og Bianca er búin að vera mjög góð undanfarin ár, svo það var vont að missa þær. 

Það eru fleiri leikmenn frá. Arna Sif var ekki með í dag, Bryndís ekki heldur og svo meiddist Heiða í upphitun á móti KR. Bryndís fór í sprautu og var þess vegna ekki með í dag. Við erum að reyna að tjasla henni saman fyrir lokaumferðirnar. Vonandi verður hún klár sem allra fyrst og vonandi er ekki langt í Örnu Sif, hún er að mínu mati besti varnarmaðurinn í deildinni. Svo koma Mexíkóarnir eftir Blikaleikinn. Þórdís verður með okkur út allt tímabilið," sagði Donni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert