„Vorum samstíga í dag“

Arnór Sveinn Aðalsteinsson
Arnór Sveinn Aðalsteinsson Eggert Jóhannesson

„Mér fannst góður andi í þessu og góð barátta. Við vorum samstíga og pressuðum vel saman og vorum þéttir. Síðan áttum við ekki eins marga flotta spilkafla og við erum vanir en andinn var frábær,“ sagði Arnór Sveinn Aðalsteinsson leikmaður KR eftir 1:0 sigur á Víkingum á Meistaravöllum í kvöld.

Vörn KR var afskaplega þétt í dag og Víkingarnir fengu fá færi í leiknum.

„Ég man varla eftir því að Beitir hafi varið hann greip bara nokkrar fyrirgjafir vel. Við vorum gríðarlega þéttir. Svo vorum við að pressa vel hátt uppi á vellinum líka þannig að við gáfum varla færi á okkur. Við þurftum að hrófla við varnarlínunni þegar Kennie meiddist í fyrri hálfleik og Skúli Jón fór í bakvörðinn. Skúli er auðvitað flottur varnarmaður og át allt sem kom upp kantinn hans. En ég er fyrst og fremst ánægður með það hvað við vorum samstíga. Það er þannig í fótbolta að það gengur aldrei allt upp í einum leik, allt liðið þarf að vera samstíga.“ 

„Planið í dag var að pressa hátt á þá og ekki leyfa þeim að byggja upp sitt spil. En ef þeir myndu leysa fyrstu pressuna, þá myndum við detta niður og spila þétt. Síðan í sóknarleiknum þá ætluðum við bara að nýta okkar styrkleika og við gerðum það vel í dag,“ sagði Arnór Sveinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert