Listin að vinna örugga 1:0 sigra

KR-ingar fagna sigurmarki sínu í Vesturbænum í gær.
KR-ingar fagna sigurmarki sínu í Vesturbænum í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Leikur KR og Víkings R. í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi fer ekki í sögubækurnar fyrir fegurðina eftir 1:0 sigur KR, svo mikið er víst. KR-ingar lögðu áherslu á að vera þéttir eftir tvo tapleiki í röð í deild og bikar og Rúnar Kristinsson stillti upp tveimur djúpum miðjumönnum fyrir framan varnarlínuna í fyrsta skiptið í sumar. Það virkaði vel fyrir KR-inga og þegar við bættist góð pressa fremstu leikmanna þeirra leiddi það til þess að Víkingar fengu nær engin færi í leiknum, aðeins hálffæri.

Stór hluti leiksins einkenndist svo af stöðubaráttu og góðum og þéttum varnarleik beggja liða og það þrátt fyrir að bæði lið þurftu að gera hrókeringar á varnarlínum sínum í leiknum vegna meiðsla. Bann Sölva Geirs Ottesen ýtti Kára Árnasyni af miðjunni aftur í miðvörðinn við hlið Halldórs Smára Sigurðssonar, sem fór síðan út af í hálfleik vegna meiðsla. Kennie Chopart meiddist í fyrri hálfleik og þurftu heimamenn því líka að gera breytingar.

KR-ingar nýttu reynslu sína frá fyrstu mínútu og náðu snemma að knýja fram gul spjöld á reynsluminni leikmenn Víkinga. Síðan eftir að Kristján Flóki Finnbogason gaf KR forystuna undir lok fyrri hálfleiks nýttu þeir alla sína reynslu í að sigla sigrinum heim með öruggum hætti.

Þetta hefur einkennt KR-liðið í allt sumar. Hægt og rólega tekst því að vinna jafna leiki með öguðum varnarleik og mjög samstilltri pressu. Þegar þeir pressa andstæðinginn langt fram á völlinn fylgir allt liðið með, og þegar þeir falla djúpt aftur þekkja allir leikmenn sitt hlutverk. Fallegt handbragð reynslumikils þjálfara.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert