Blikar þurfa í undanúrslit ef Elfar á að geta spilað 2020

Elfar Freyr Helgason var úrskurðaður í þriggja leikja bann í …
Elfar Freyr Helgason var úrskurðaður í þriggja leikja bann í gær. mbl.is/Arnþór

Elfar Freyr Helgason, leikmaður Breiðabliks í knattspyrnu, var í gær úrskurðaður í þriggja leikja bann í bikarkeppni KSÍ af aga- og úrskurðarnefnd sambandsins. Elfar Freyr fékk beint rautt spjald fyrir brot í undanúrslitaleik gegn Víkingi R. í síðustu viku, en í kjölfarið tók Elfar spjaldið af Þorvaldi Árnasyni dómara og kastaði því í jörðina. Fékk hann því lengra bann fyrir vikið.

Leikbönn í bikarnum eru aðskilin deildarkeppnum og því getur Elfar ekki tekið út bannið fyrr en næsta sumar. Hann getur í fyrsta lagi komið inn í undanúrslitin á næsta ári, nái Blikar að vinna í þremur umferðum þar á undan, en ef allt fer á versta veg gæti Elfar ekki spilað bikarleik fyrr en árið 2023 ef lið hans fellur úr leik í fyrstu umferð næstu þrjú árin.

Þá fékk bikarmeistarinn Grace Rapp úr kvennaliði Selfoss eins leiks bann í bikarnum.

Þeir Morten Beck Guldsmed (FH), Hallur Flosason og Hlynur Sævar Jónsson (ÍA), Kennie Chopart (KR), Bjarni Ólafur Eiríksson (Val) og Guðmundur Andri Tryggvason (Víkingi R.) fengu svo eins leiks bann í efstu deild karla og Caroline van Slambrouck (ÍBV) eins leiks bann í efstu deild kvenna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert