Þróttur upp í efstu deild – FH missteig sig

Linda Líf Boama var á skotskónum fyrir Þróttara í kvöld …
Linda Líf Boama var á skotskónum fyrir Þróttara í kvöld sem komust upp í efstu deild. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þróttur R. tryggði sér í kvöld sæti í efstu deild kvenna í knattspyrnu með 4:0-sigri á ÍA þegar liðin mættust í 15. umferð 1. deildar kvenna, Inkasso-deildarinnar, á Akranesi.

Linda Líf Boama skoraði tvö mörk fyrir Þrótt og þær Margrét Sveinsdóttir og Lauren Wade eitt mark hvor. Þegar þrír leikir eru eftir er Þróttur með 39 stig á toppnum og á ekki möguleika á því að enda neðar en annað sætið. Þróttur spilaði síðast í efstu deild sumarið 2015 en vann ekki leik það sumarið og féll með tvö stig.

FH hefði einnig getað tryggt sér sæti í efstu deild með sigri á Haukum. Haukar gerði sér hins vegar lítið fyrir og unnu 5:3 í Kaplakrika og eiga ennþá möguleika á því að fylgja Þrótti upp.

Staðan var orðin 4:0 fyrir Hauka eftir rúmar tíu mínútur. Vienne Behnke var þá búin að skora þrennu áður en Sierra Lelii bætti við marki. Dagrún Birta Karlsdóttir skoraði svo fyrir hlé en sjálfsmark Hauka gerði það að verkum að staðan var 5:1 í hálfleik.

Margrét Sif Magnúsdóttir og Birta Georgsdóttir löguðu stöðuna fyrir FH eftir hlé, en niðurstaðan 5:3 fyrir Hauka. FH er í öðru sæti með 35 stig en Haukar eru nú í þriðja sætinu með 27 stig.

Tindastóll á einnig möguleika á því að komast upp, en liðið á leik til góða í fjórða sætinu með 25 stig.

Markaskorarar fengnir frá úrslit.net.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert