Öruggur sigur þótt markið kæmi seint

Ágúst var hetja Víkings í kvöld.
Ágúst var hetja Víkings í kvöld. mbl.is/Arnþór

„Þetta er geðveikt. Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur og við erum mjög sáttir með að vinna," sagði kampakátur Ágúst Hlynsson í samtali við mbl.is eftir 1:0-sigur Víkings Reykjavíkur á Grindavík í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. 

Sóknarmaðurinn ungi segir sigurinn hafa verið verðskuldaðan, en Ágúst skoraði sigurmarkið tíu mínútum fyrir leikslok. 

„Það var ekkert panikk. Við vissum að þetta myndi koma að lokum. Við stjórnuðum þessum leik og vorum miklu betri. Ég vissi að þetta myndi detta inn einhvern tímann í lokin. Við fengum fullt af færum og þar á meðal ég þegar ég komst einn í gegn í fyrri hálfleik.

Þetta var öruggur sigur þótt markið hafi komið frekar seint," sagði Ágúst sem viðurkennir að hann hefði farið pirraður að sofa, ef hann hefði ekki skorað sigurmarkið, þar sem hann klikkaði á úrvalsfæri í fyrri hálfleik. „Þá hefði ég verið illa pirraður eftir leikinn, ég skal viðurkenna það."

Miðað við leikinn í dag er Víkingur með mun betra lið en Grindavík, en samt munaði aðeins einu stigi á liðunum fyrir leikinn. „Við erum með gott lið. Við þurfum bara að tengja sigra og klifra upp þessa töflu," sagði Ágúst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert