Sanngjarn sigur Víkings í fallslagnum

Úr leik Víkings og Grindavíkur í rigningunni í Víkinni í …
Úr leik Víkings og Grindavíkur í rigningunni í Víkinni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víkingur R. hafði betur gegn Grindavík, 1:0, er liðin mættust í fallslag í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í roki og rigningu í Fossvoginum. Víkingur fór upp um tvö sæti og upp í áttunda sæti með sigrinum, en Grindavík er nú þremur stigum frá öruggu sæti í deildinni. 

Víkingur var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik, en sterkur varnarleikur Grindavíkur gerði Víkingum oft erfitt fyrir. Ágúst Eðvald Hlynsson fékk hins vegar dauðafæri um miðjan hálfleikinn er hann slapp einn í gegn en Vladan Djogatovic í marki Grindavíkur varði glæsilega frá honum. 

Grindvíkingar fengu fá færi og náðu þeir ekki að reyna á Þórð Ingason í marki Víkings í hálfleiknum. Gestirnir áttu tvö skot á markið í hálfleiknum og voru það laus skot sem Þórður átti ekki í neinum vandræðum með og var staðan í hálfleik því markalaus. 

Seinni hálfleikur þróaðist á svipaða vegu og sá fyrri. Víkingar voru mun sterkari og náði Grindavík ekki að sækja mikið. Sókn Víkings bar loks árangur tíu mínútum fyrir leikslok er Ágúst Eðvald Hlynsson skoraði mark skoti úr teignum eftir fyrirgjöf Davíðs Arnar Atlasonar. 

Grindavík var ekki nálægt því að jafna á síðustu tíu mínútunum og fögnuðu Víkingar því afar mikilvægum stigum. 

Víkingur R. 1:0 Grindavík opna loka
90. mín. Það verða fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert