Vont að tapa þessum úrslitaleik

Srdjan Tufegdzic, þjálfari Grindavíkur.
Srdjan Tufegdzic, þjálfari Grindavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Srdjan Tufegdzic (Túfa), þjálfari Grindavíkur, var sáttur með frammistöðu liðs sín, þrátt fyrir 0:1-tap fyrir Víkingi á útivelli í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld. Grindavík er nú í næstneðsta sæti, þremur stigum frá öruggu sæti. 

„Þrátt fyrir tap er ég ánægður með okkar frammistöðu. Víkingarnir voru betri í fyrri hálfleik, en það var meira jafnvægi í seinni hálfleik. Við bjuggumst við svona leik á þeirra heimavelli, þar sem þeir eru búnir að vera sterkir í sumar.

Akkúrat þegar leikurinn var að opnast fyrir okkur kemur sigurmarkið þeirra. Það vantaði það sem hefur vantað hjá okkur í sumar. Það vantaði meiri gæði á síðasta þriðjungi. Við komumst í góðar stöður en það vantaði betri fyrirgjafir og betri slútt og að búa til betri færi fyrir sóknarmennina,“ sagði Túfa um leikinn. Hann er viðurkennir að staða liðsins er ekki góð. 

„Staðan er ekki góð þegar þú ert í ellefta sæti. Það var bara eitt stig á milli Víkings og Grindavíkur fyrir leikinn í kvöld. Núna er munurinn fjögur stig og því var vont að tapa þessum úrslitaleik. Ég er svekktur yfir úrslitunum, ekki frammistöðunni.“

Grindavík mætir KA í næstu umferð og tapist sá leikur er liðið komið í afar erfiða stöðu. 

„Við förum í næsta leik og reynum að vinna hann. KA er að koma í heimsókn og það er þriggja stiga munur á milli. Með sigri komumst við aftur inn í baráttuna. Við ætlum að berjast til síðasta blóðdropa inn í september og sjá til hvað við náum langt,“ sagði Túfa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert