Hefði verið stressaður fyrir sjö árum

Jón Daði Böðvarsson í baráttu við varnarmann Moldóva á laugardaginn …
Jón Daði Böðvarsson í baráttu við varnarmann Moldóva á laugardaginn en þar lagði hann upp fyrsta markið og skoraði það þriðja þó snertingin hefði verið lítil. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Daði Böðvarsson, leikmaður enska B-deildarliðsins Millwall City, hefur komið aftur inn í landsliðið í sumar og verið í byrjunarliðinu í tveimur síðustu leikjum, gegn Tyrkjum og Moldóvum, með góðum árangri. Hann sagði við mbl.is á hóteli landsliðsins í Tirana í dag að hann væri að komast í sitt besta form eftir erfiðan meiðslakafla sem setti strik í reikninginn hjá honum á síðasta tímabili.

Hann á eins og aðrir von á hörkuleik gegn Albönum í Elbasan annað kvöld.

„Ég býst við erfiðari leik en gegn Moldóvum. Albanar eru mjög líkamlega sterkir og góðir í návígjum þannig að þeir verða erfiðir á heimavelli. Ég býst við mjög þéttum og jöfnum leik.“

Albanar hafa spilað með fimm manna vörn í tveimur síðustu leikjum. Breytir það miklu í ykkar undirbúningi?

„Við erum rétt  byrjaðir að skoða þá og förum betur yfir það í kvöld hvernig þeir stilla upp sínu liði. Það verður áhugavert og maður fær betri mynd af því á eftir. Við þurfum að vera klárir í það og vera með alla okkar hluti á hreinu á morgun.“

Er það mikill munur, hvort þú ert að spila gegn þremur miðvörðum eða tveimur?

„Nei, mér finnst það ekkert rosalegur munur. Jú, þú þarft kannski ákveðnar áherslur aðeins öðruvísi í pressu en við tökum á því eins og það verður.“

Þú hefur verið óheppinn með meiðsli undanfarna mánuði. Hvernig er standið á þér núna?

„Ég er góður núna, takk. Á síðasta tímabili hjá Reading lenti ég í því í fyrsta skipti á ferlinum að vera stöðugt að meiðast. Alltaf einhver lítil meiðsli og einhvern veginn komst maður aldrei af stað og var stöðugt í eltingaleik. Tímabilið byrjaði vel, sjálfstraustið var mjög gott og ég hélt að þetta yrði mitt tímabil.

Svo gerðist þetta og ég náði aldrei að komast í fulla æfingu aftur. Mér tókst þó að halda haus og fara einhvern veginn í gegnum þetta, og þegar tímabilinu lauk í vor einbeitti ég mér að því að gera mig kláran í landsliðsverkefnin. Ég var í mjög góðu standi, spilaði gegn Tyrkjum í 60 mínútur og fór svo til Millwall.

Þar hef ég líka verið að vinna í þrekinu og núna fyrst er ég að komast almennilega af stað aftur. Ég hef lítið spilað í deildinni ennþá, komið inná í tveimur leikjum, en lék gegn WBA í deildabikarnum og þá sagði þjálfarinn við mig að hann vildi að ég spilaði í 90 mínútur því hann vissi að það væri orðið hálft ár síðan ég hefði gert það. Mér tókst að halda það út, það var erfitt, en svo spilaði ég gegn Oxford í sömu keppni og þá var þetta komið aftur. Þar var ekkert mál að spila í 90 mínútur. Nú er ég í flottu standi og mér líður vel.“

Þú getur þá væntanlega farið að slást af alvöru um sæti í byrjunarliði Millwall?

„Já, algjörlega. Þeir vissu nákvæmlega mína stöðu þegar ég kom til þeirra í sumar, sem er mjög flott. Venjulega er mikil pressa að þú sért klár á núll komma einni, en þarna fékk maður tímann sem þurfti. Planið er auðvitað að komast inn í þetta byrjunarlið sem fyrst.“

Hvernig var að koma inn í félag eins og Millwall?

„Bara flott. Þetta er dálítið öðruvísi en hjá Reading, eiginlega svona lítill en samt stór klúbbur í London. Aðeins öðruvísi áherslur, heiðarlegur klúbbur sem veit fyrir hvað hann stendur og er með ákveðin einkenni. Núna finnur maður fyrir alvöru andrúmslofti á þessum leikvangi og það er virkilega gaman að spila fyrir þá.“

Annað kvöld í Elbasan, þið verðið að vinna, það er einfalt, ef þið ætlið að vera í slagnum um sæti á EM. Hvernig er að fara með þá pressu í þennan leik?

„Ef þetta hefði verið fyrir sjö árum, og ég tvítugur, þá hefði maður kannski verið dálítið stressaður. En maður er búinn að vera svo lengi í þessu landsliði að það þýðir að maður fer einbeittur í leikina en ekki áhyggjufullur. Hugarfarið í þessum hópi er þannig og karakterinn að þetta er samnefnari hópsins. Ég finn meira fyrir spennu og tilhlökkun fyrir erfiðum og jöfnum leik. Þetta er bara spennandi. Við erum algjörlega tilbúnir og ég finn á mér að allir séu það,” sagði Jón Daði Böðvarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert