Svörum fyrir þetta með sigri á Íslendingum

Sokol Cikalleshi skorar mark Albana úr vítaspyrnu á Stade de …
Sokol Cikalleshi skorar mark Albana úr vítaspyrnu á Stade de France á laugardagskvöldið. AFP

Sokol Cikalleshi, sem skoraði mark Albana í tapleiknum gegn Frökkum í undankeppni EM í knattspyrnu á laugardagskvöldið, segir að albanska liðið ætli að svara fyrir frammistöðuna þar með því að sigra Íslendinga í Elbasan annað kvöld.

Cikalleshi, sem er samherji Theódórs Elmars Bjarnasonar hjá Akhisarspor í Tyrklandi, skoraði úr vítaspyrnu seint í leiknum á Stade de France, eftir að brotið var á honum í vítateig Frakkanna. Þá var staðan þegar orðin 4:0.

„Við vorum að spila við heimsmeistarana, Frakka, sem eru besta lið heims í dag og það var viðbúið að svona gæti farið. Við ætluðum okkur hinsvegar að reyna að koma á óvart. Við trúðum því að við gætum náð góðum úrslitum og lögðum upp með það. Ætluðum að halda þeim án marka eins lengi og hægt væri, þá væri allt hægt,“ sagði Cikalleshi við Panorama Sport.

Við töpuðum en það hefur ekki dregið úr metnaði okkar. Við vissum alveg hvar við stæðum gagnvart Frökkum fyrir leikinn og ætluðum að ná betri úrslitum en gegn Íslandi getum við gert betur. Við leggjum Frakkaleikinn til hliðar og getum sigrað Ísland. Ég hef fulla trú á því, þótt við höfum verið í vandræðum, og takist það verðum við komnir á rétta braut á ný,“ sagði Cikalleshi sem er 29 ára gamall og skoraði sitt fjórða mark í 31 landsleik gegn Frökkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert