Hamrén var ekkert að kvarta eða kveina

Guðni Bergsson formaður Knattspyrnusambands Íslands.
Guðni Bergsson formaður Knattspyrnusambands Íslands. mbl.is/Hari

Guðni Bergsson formaður KSÍ er bjartsýnn á möguleika karlalandsliðs Íslands í undankeppni EM fyrir leikinn gegn Albönum í Elbasan í kvöld. Hann vonast eftir því að niðurstaða um nýjan þjóðarleikvang Íslands liggi fyrir snemma á næsta ári, telur ekki nauðsynlegt að lagt sé gervigras á hann, og er ánægður með byrjunina hjá Arnari Þór Viðarssyni í nýju starfi sem yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ.

Mbl.is settist niður með Guðna á hóteli íslenska landsliðsins í Tirana í gær og fór yfir stöðu mála á þessum þremur sviðum með honum.

Hvernig meturðu stöðuna á liðinu núna og möguleikana fyrir þessa seinni fimm leiki í undankeppninni?

„Ég er mjög ánægður með stöðuna á liðinu eins og hún er núna. Við fórum auðvitað í gegnum erfitt tímabil eftir HM í Rússlandi, með breytingum á þjálfarateymi, og í kjölfarið voru komin upp mikil meiðsli í hópnum fyrir verkefnin okkar í Þjóðadeildinni. Það var okkur erfiður róður og úrslitin voru ekki góð. Við spiluðum á móti gríðarsterkum andstæðingum, Belgíu og Sviss, en vorum í A-deild sem útaf fyrir sig var frábær árangur.“

Undarlegt að vera í þessari stöðu

„Það er í raun dálítið undarlegt að vera í þessari stöðu með íslenska landsliðið á svona frábærum stað eftir HM þar sem svo litlu mátti muna að við kæmumst áfram, upplifa það og vera í A-deild Þjóðadeildarinnar, ein Norðurlandaþjóða, og allt stoltið sem því fylgdi, en svo voru úrslitin eins og þau voru. Þetta voru skin og skúrir en þetta var erfiður tími og þjálfarinn, Erik Hamrén, fann mesta hitann af því og fékk mikla gagnrýni. Eftir þetta, á þessu ári, eftir að við fengum okkar leikmenn aftur til baka og í betra leikformi, og þeir sjálfir náðu áttum og þéttu raðirnar, hafa úrslitin verið mjög góð.

Það eru engir leikir lengur auðveldir í íslenskum fótbolta eins og dæmin sýna og þessi góði sigur á Albaníu heima, 1:0, sem var virkilega erfiður leikur og svo Tyrkjaleikurinn sem var samt einhvern veginn auðveldari en Albaníuleikurinn vegna þess hvernig hann þróaðist allt öðruvísi.  Þetta gaf liðinu aftur góðan byr undir vængina og svo kom núna síðast traustur sigur á móti Moldóvu.

Mér finnst eins og liðið sé á mjög góðum stað núna til að gera atlögu að því að komast í þriðju úrslitakeppnina á stórmóti í röð.“

Erik Hamrén hefur fagnað sigri í fjórum leikjum af fimm …
Erik Hamrén hefur fagnað sigri í fjórum leikjum af fimm í undankeppni EM. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Þú nefnir Hamrén og erfiðan tíma þegar hann tók við. Finnst þér hann hafa vaxið með verkefninu á þessu ári og unnið sig og liðið út úr þessu?

„Já, algjörlega. Hann er með mikla reynslu sem þjálfari, bæði hjá félagsliðum og svo hjá sænska landsliðinu þar sem hann náði góðum árangri, og það hefur örugglega hjálpað honum mikið á þessum kafla. Mér fannst hann sýna mikinn og sterkan karakter, hann tók mestalla ábyrgðina á sig og fékk alla gagnrýnina, og þannig er það svo sem oftast með þjálfara, en hann gerði það bara og var ekkert að kvarta eða kveina yfir því. Hann hélt sinni einbeitingu á það sem hann trúði á og ég er mjög ánægður með hvernig þeir vinna saman, hann, Freyr og allt þjálfarateymið.

Ég held að núna séum við að uppskera samkvæmt þessu, þannig að ég er mjög ánægður með hvernig hann fór í gegnum þetta erfiða tímabil. Það var alls ekki auðvelt, menn eru metnaðarfullir og það er erfitt fyrir hvern sem er að fá harkalega gagnrýni í fjölmiðlum en það fylgir þessu starfi.“

Meðvituð um að liðið er að eldast

Landsliðið er í dag skipað nánast sömu leikmönnum og á EM 2016, sem er að sjálfsögðu mikill stöðugleiki. En er það veikleiki í leiðinni, er endurnýjunin ekki nógu góð?

„Sko, ég held að það sé styrkleiki að hafa keyrt á sama liðinu varðandi reynslu og fleira en auðvitað erum við meðvituð um að liðið er að eldast. En flestir leikmannanna eru samt enn á mjög góðum aldri og eiga talsvert eftir. Á sama tíma hefur kannski ekki verið mjög mikið pláss fyrir endurnýjun eins og við tökum eftir og auðvitað þarf að koma að því.

Við erum með nokkra leikmenn sem eru farnir að gera tilkall til þess að komast í liðið, eru í hópnum og eru tilbúnir til að stíga þetta skref. Hjörtur Hermannsson er kominn inní liðið, hann er miðvörður en hefur spilað sem bakvörður og skilað því mjög vel. Við erum með Arnór Sigurðsson, Albert Guðmundsson og fleiri sem vilja komast í liðið og eru farnir að gera tilkall til þess. Þetta er verkefni þjálfaranna á næstu árum, en á endanum er þetta samt þannig að þeir bestu hverju sinni eru valdir til að byrja leikina. Það er gríðarlega mikilvægt að vera með sem stærstan hóp og breiðastan og við erum að horfa fram á að endurnýjun þarf óhjákvæmilega að koma til á næstu árum.“

Nýi þjóðarleikvangurinn í Tirana er stórglæsilegt mannvirki.
Nýi þjóðarleikvangurinn í Tirana er stórglæsilegt mannvirki.


Hérna við hliðina á hóteli landsliðsins í Tirana er nýr og glæsilegur þjóðarleikvangur Albana risinn og litlu munaði að hann yrði tilbúinn fyrir leikinn gegn Íslandi. Baráttan fyrir nýjum Laugardalsvelli er í gangi, væri ekki gott að vera kominn með einn svona leikvang í Laugardalinn?

„Jú, að sjálfsögðu væri það frábært, og núna er vinnan í undirbúningsfélaginu fyrir þjóðarleikvanginn í mjög góðum gír. Það er fundað í hverri viku og það er kraftur í þeirri vinnu. Það tók heldur langan tíma að koma henni á, ég hefði kosið að ákvörðun um leikvang hefði legið fyrir áður en við fórum á HM en það varð ekki raunin.

Við erum að reyna að vanda okkur og ég tel að það séu mikil og sterk rök fyrir byggingu nýs vallar. Það er algjörlega ljóst að Laugardalsvöllurinn í dag stenst engar kröfur og við erum á undanþágu. Aðstaða fyrir áhorfendur, fatlaða, fjölmiðla og búningsklefar leikmanna eru engan veginn viðunandi. Þetta heftir líka okkar möguleika í stóru mótunum því við búum við þá stöðu að geta ekki spilað mótsleiki á heimavelli í byrjun og lok riðlakeppni fyrir Evrópumót, til dæmis, í mars og nóvember. Það er slæmt að eiga ekki þann möguleika að enda slíka keppni á heimavelli.

Þetta er það sem við búum við. Völlurinn er 60 ára gamall og allt á honum er komið til ára sinna. Ég vona bara að það verði sýndur sá metnaður, sem er algjörlega nauðsynlegur, að hann verði endurbyggður, og vona svo sannarlega að endanleg ákvörðun um það verði ekki tekin síðar en á fyrri helmingi næsta árs.

Eigum að sýna metnað og framsýni

Ég tel fyllilega réttlætanlegt fyrir Reykjavíkurborg að ráðast í það, enda kostar hún þegar miklu fé til vallarins sem eigandi hans, og svo er það að sjálfsögðu ríkisvaldsins til að koma til móts við þetta verkefni, því þetta er þjóðarleikvangur og við eigum að sýna metnað og framsýni. Við verðum á einhverra áratuga fresti að fjárfesta í innviðum fyrir fótboltann sem svona leikvangur er. Þetta skiptir máli fyrir allan fótboltann, grasrótina, deildakeppnina, landsliðin – þetta skiptir máli fyrir alla – og mun nýtast samfélaginu öllu ef við tölum um fjölnota leikvang með hreyfanlegu þaki, sem ég tel að verði að vera niðurstaðan ef vel ætti að vera.“

Eins og að byggja tónlistarhús

Slíkur leikvangur, þarf hann að vera lagður gervigrasi fyrst það á að spila á honum í mars og nóvember?

„Nei, alls ekki. Með svokölluðu „hybrid-grasi“, grasi styrktu með gerviefnum, þá er hægt að vera með náttúrlegt gras sem ég tel mjög mikilvægt ef við ætlum að vera samkeppnishæfir. Þetta er eins og að byggja tónlistarhús, hljómburðurinn skiptir máli. Það er mögulega hagkvæmara að vera með gervigras, og fá þá kannski meiri nýtingu á völlinn, en það er ekki endilega nauðsynlegt að vera með mikla nýtingu í æfingum og leikjum á þjóðarleikvangi því rekstrarleigan skiptir ekki svo miklu máli. Alþjóðlegur fótbolti í hæsta gæðaflokki er spilaður á náttúrulegu grasi og ég held að við viljum vera með hinum um það bil 50 þjóðum Evrópu sem eru með náttúrulegt gras á sínum þjóðarleikvöngum.

En þetta er eitthvað sem við munum skoða vel. Það er allavega vilji minn, og ég held hreyfingarinnar, og sérstaklega leikmanna, að við munum leika á grasi. Það er betri upplifun fyrir leikmenn og betri upplifun fyrir áhorfendur, að mínu mati.“

Arnar Þór Viðarsson er yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ og jafnframt …
Arnar Þór Viðarsson er yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ og jafnframt þjálfari 21-árs landsliðs karla. mbl.is/Kristinn Magnússon


Yfirmaður knattspyrnumála er tekinn til starfa, Arnar Þór Viðarsson, eftir langan aðdraganda. Hvernig hefur gengið að þróa þetta nýja starf?

„Ég er gríðarlega ánægður með hvernig það hefur farið af stað. Hann hefur byrjað mjög kröftuglega, hefur verið gríðarlega ötull við að heimsækja félögin, hefur fundað með yfirþjálfurum og verið í hugmyndafræðilegri vinnu um hvernig við getum sótt fram með fótboltann. Við erum að endurskipuleggja æfingaprógrammið fyrir yngri landsliðin, erum að skoða þætti eins og sálfræði og næringu og hvernig við getum tekið það inn í okkar starf, og þá líka út í félögin, og við erum að bæta við og efla mælingar á leikmönnum – sem ég vil að nýtist síðan félögunum.

Mér finnst að Arnar hafi komið mjög sterkur inn og sé að gera okkar faglega starf á fótboltasviðinu innan KSÍ markvissara og sterkara til framtíðar. Og ekki síst finn ég að það er góður samhljómur úti í aðildarfélögunum fyrir því að Arnar sem yfirmaður knattspyrnusviðs eigi að nýtast fótboltanum í heild sinni. Ég er því mjög sáttur við þetta og eins hvernig við sem teymi höfum skerpt á okkar áherslum innan KSÍ og ég tel að fótboltinn á Íslandi muni verða sterkari fyrir vikið. Ég er mjög ánægður með byrjunina,“ sagði Guðni Bergsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert