Breiðablik jafnaði á síðustu sekúndunni

Fanndís Friðriksdóttir skorar fyrsta mark leiksins.
Fanndís Friðriksdóttir skorar fyrsta mark leiksins. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik og Valur áttust við á Kópavogsvelli í kvöld í úrslitaeinvígi Pepsi Max-deildar kvenna í fótbolta. Valsmenn komust yfir rétt fyrir leikhlé en leiknum lauk 1:1 þegar Blikar jöfnuðu leikinn á síðustu mínútu uppbótartímans og komu í veg fyrir að Valskonur fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum í leikslok.

Úrslitin í Íslandsmótinu eru því enn óráðin og munurinn á liðunum er enn tvö stig. Valskonur mæta föllnum Keflvíkingum í síðustu umferðinni á meðan Blikar mæta Fylkismönnum, báðir leikirnir fara fram næstkomandi laugardag. Val mun nægja jafntefli þar til að tryggja sér titilinn vegna yfirburða í markatölu gagnvart Breiðabliki.

Það var greinilegt að Blikar ætluðu sér að setja mark strax í byrjun leiks en þær sóttu án afláts allan fyrri hálfleikinn og voru mun meira með boltann. Vindurinn blés hressileg á mark Valsmanna sem áttu í erfiðleikum með að temja knöttinn og náðu ekki að tengja spilið á milli manna.

Blikar sóttu mikið upp kantana og voru duglegar að koma boltanum inn í vítateig. Fremstar í flokki voru þær Karólína Lea, Hildur Antons og Berglind Björg sem leituðu hver aðra uppi og héldu Valsvörninni upptekinni.

Eftir rúmt korter átti Berglind Björg glæsilegt skot af löngu færi sem vindurinn blés rétt fram hjá markinu. Hildur Antons komst í kjörið marktækifæri á 36. mínútu þegar hún sneri Dóru Maríu af sér og virtist ætla að negla boltanum í þaknetið þegar Sandra varði glæsilega og bjargaði í horn.

Hlín Eiríks var heppin að sleppa með gult spjald þegar hún lenti í klaufalegu samstuði við Áslaugu Mundu eftir um hálftíma leik. Dómari leiksins virtist þó pollrólegur og útkljáði þetta atvik á eins einfaldan máta og hægt var.

Eitt umdeildasta atvik fyrri hálfleiks kom á fertugustu mínútu þegar Hildur Antons kom á siglingu inn í vítateiginn eftir að hafa farið í gegnum tvo varnarmenn Vals og náði ekki að fóta sig í skotinu. Hún féll við og Blikar vildu fá víti en ekkert var dæmt.

Blikar dottuðu aðeins við þetta því aðeins mínútu seinna fékk Fanndís frítt skot af vítateig eftir flott upplegg Margrétar Láru og kom Valsmönnum yfir, 0:1. Þetta mark kom þvert á gang leiksins og það fjórum mínútum fyrir hálfleik. Það má ekki gefa svona kempum svona tækifæri. Sonný, sem náði ekki að fóta sig, þurfti að sækja boltann í netið.

Seinni hálfleikurinn einkenndist af miklum hita og barningi af beggja hálfu. Margrét Lára fékk kjörið tækifæri til að auka forystuna þegar hún kom sér í fína stöðu inn í vítateig og átti bara eftir að leggja boltann í hornið, en skaut í hliðarnetið.

Blikar áttu margsinnis eftir að fylla teig Valsmanna af fólki og dældu inn fyrirgjöfum en náðu ekki að skapa sér mörg hættuleg færi. Þegar færin litu dagsins ljós náði Sandra að verja vel eða Valsvörnin að þvælast fyrir.

Leikurinn virtist vera að fjara út og Valsmenn voru byrjaðir að syngja í stúkunni þegar Blikar fengu hornspyrnu. Agla María sendi þá boltann beint á kollinn á Heiðdísi sem skallaði boltann örugglega í netið og náði að jafna á 94. mínútu. Ótrúleg endurkoma.

Breiðablik 1:1 Valur opna loka
90. mín. Málfríður Anna Eiríksdóttir (Valur) kemur inn á
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert