„Pirruðum okkur á ákveðni þeirra“

Úr leik Fylkis og ÍBV fyrr í sumar.
Úr leik Fylkis og ÍBV fyrr í sumar. mbl.is/Arnþór Birkisson

Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis, var auðvitað ekki sáttur með tap sinna kvenna gegn ÍBV í miklum rokleik í Vestmanneyjum í dag. Leikurinn var liður í 17. umferð Pepsi Max-deildar kvenna.

„Ég veit ekki hvað fór úrskeiðis, við vorum að pirra okkur á ákveðni þeirra og misstum aðeins hausinn. Það er sennilega það sem gerði útslagið í þessu, aðstæður eru auðvitað þannig að ég þakka guði fyrir það að ég sé ekki í einhverri fallbaráttu. Þetta er varla fótbolti en það er klárt að Vestmannaeyingar eru betri en við í þessu veðri.“

Þórdís Elva Ágústsdóttir missti svo sannarlega hausinn þegar hún fékk að líta rauða spjaldið á 36. mínútu leiksins, fyrir að svoleiðis negla Ingibjörgu Lúcíu Ragnarsdóttur í grasið.

„Ég er ekki alveg með það á hreinu hvað gerðist þar, ég hef ekki náð að ræða við hana, ég sest yfir það. Hún vill meina að það hafi verið búið að stíga þó nokkuð á hana og sparka aftan í hælana á henni. Hún missti bara hausinn, það getur alltaf komið fyrir, maður vill helst ekki að það gerist með þessum hætti. Hún er ung og við munum saman tvö læra af þessu.“

ÍBV sækir mun meira í upphafi leiks en náðu ekki að skora fyrr en Fylkiskonur misstu Þórdísi af velli. Þá fengu gestirnir á sig tvö mörk sem gerðu róðurinn mun erfiðari í síðari hálfleik.

„Þetta er bara svona, í svona roki getur þetta verið hvernig sem er. Við vissum að það yrði á brattann að sækja í svona veðri, það er oft sem maður frestar æfingum þegar það fer í ákveðinn vindhraða, þetta voru jú vissulega tvö lið að reyna að spila fótbolta. Annað liðið var bara mun betra en hitt.“

Cecilía Rán Rúnarsdóttir missti líka hausinn, eftir síðasta leik, þar sem hún fékk sitt annað gula spjald og tók út leikbann í dag. Brigita Morkute kom vel inn í liðið fyrir hana og átti fínan leik.

„Brigita átti góðan leik, hún stóð sig vel í sterkum vindi, en það var auðvitað ekkert að gera hjá henni þannig séð í seinni hálfleik. Við vorum virkilega sáttir við Brigitu, hún stóð sig hrikalega vel eins og liðið heilt yfir. Aðstæður voru bara þannig að þær voru ekki það sem leikmenn óska sér að spila í.“

ÍBV skorar úr hornspyrnum þessi mörk sín í leiknum, fyrir utan það var mikið jafnvægi í leiknum.

„Boltinn var bara skrúfaður upp í vindinn, öllum þrýst á línuna og dröslað svoleiðis inn. Það er munurinn í dag á þessum liðum, bæði lið gátu ómögulega spilað eitthvað af viti upp á móti rokinu, svo var ekkert auðvelt að temja boltann með rokinu. Þetta voru tvær hornspyrnur sem þær gerðu vel í og tryggðu veru sína í Pepsi Max-deildinni á næsta ári og óska ég þeim til hamingju með það.“

Kjartan segir að sumarið hafi heilt yfir verið gott.

„Við tókum ákveðið run, sem við vissum að væri að duga eða drepast fyrir okkur. Við gerðum okkur grein fyrir því að 17 ára landsliðið gerir það að verkum að við erum með tvo leikmenn í burtu út af því. Við vissum hvernig tveir síðustu leikirnir væru og að þeim yrði ekki frestað, hvorki út af veðri né 17 ára landsliði. Við vorum í þeirri aðstöðu að leikmenn voru að fara til útlanda og þetta voru úrslitaleikirnir okkar þessir fimm, við einbeittum okkur að því. Við reynum nú að gera eins vel og við getum en okkur fækkar, þar sem Þórdís er komin með rautt þannig að þetta verður eitthvað skrautlegt á móti Breiðabliki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert