Gregg Ryder hættir með Þórsara

Gregg Ryder.
Gregg Ryder. mbl.is/Hari

Knattspyrnudeild Þórs á Akureyri hefur komist að samkomulagi við Gregg Ryder að hann láti af störfum sem þjálfari karlaliðs félagsins eftir tímabilið. Þetta kemur fram á vef félagsins.

Gregg Ryder tók við þjálfun Akureyrarliðsins af Lárusi Orra Sigurðssyni í október á síðasta ári. Fyrir lokaumferð Inkasso-deildarinnar eru Þórsarar í fimmta sæti deildarinnar en Þór tekur á móti Magna frá Grenivík á morgun og verður það síðasti leikur liðsins undir stjórn Ryders.

„Liðinu gekk mjög vel stærstan hluta sumarsins en nokkrir samverkandi þættir urðu þess valdandi að okkur tókst ekki að gera atlögu að sæti í efstu deild á lokakaflanum. Þrátt fyrir að hafa ekki náð markmiðum okkar um úrvalsdeildarsæti hefur okkur tekist að byggja til framtíðar. Margir ungir leikmenn félagsins hafa öðlast dýrmæta reynslu á vellinum og hafa samhliða tekið miklum framförum.

Framtíðin er björt fyrir Þór og ég óska félaginu alls hins besta á komandi árum. Ég hef notið hverrar stundar á Akureyri og vil nota tækifærið og þakka öllum sem ég hef kynnst hér fyrir skemmtilegt og gefandi samstarf. Ég vona að ég fái tækifæri til að starfa áfram við íslenska knattspyrnu,“ segir Gregg Ryder í viðtali á vef Þórsara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert