„Erum besta lið á Íslandi“

Margrét Lára og Pétur Pétursson fallast í faðma á Hlíðarenda …
Margrét Lára og Pétur Pétursson fallast í faðma á Hlíðarenda í dag. mbl.is/Hari

„Við höfum sýnt og sannað að við erum besta lið á Íslandi í dag. Við fórum fagmannlega í gegnum Íslandsmótið. Við bárum virðingu fyrir öllum okkar andstæðingum og þess vegna gerðum við þetta svona sannfærandi,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði Vals, þegar Íslandsmeistaratitillinn var í höfn. 

Margrét Lára varð síðast Íslandsmeistari árið 2008 eða áður en hún hélt utan í atvinnumennsku. „Já það er orðið allt of langt síðan enda var ég að þvælast í útlöndum. En ég varð reyndar meistari í Svíþjóð 2009 og Þýskalandsmeistari árið 2012.“

Valur fór í gegnum deildina án þess að tapa leik og gerði einungis tvö jafntefli gegn Breiðabliki sem ekki tapaði heldur leik en gerði þrjú jafntefli. 

„Við gerðum tvö jafntefli gegn Breiðabliki en misstigum okkur ekki gegn öðrum andstæðingum og sigrarnir voru mjög sannfærandi. Frammistaða okkar var jöfn og góð. Sigrarnir voru ekki í hættu og við vorum ekki nærri því að tapa jafnteflisleikjunum. Þess vegna finnst mér við vera besta liðið á Íslandi,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir í samtali við mbl.is. Hún sýndi í sumar að enn eru töfrar í takkaskónum hjá henni en hún hefur lítið spilað síðustu árin vegna barneigna og krossbandsslits. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert