Sætur sigur KA-manna í Víkinni

Nikolaj Hansen, Hallgrímur Jónasson, Hrannar Björn Steingrímsson
Nikolaj Hansen, Hallgrímur Jónasson, Hrannar Björn Steingrímsson

KA-menn gerðu góða ferð í Víkina þar sem þeir lögðu Víkinga 3:2 í skemmtilegum leik. Liðin voru fyrir leikinn í fallhættu en þar sem Grindvíkingum tókst ekki að vinna Val eru Víkingar öruggir með að halda sæti sínu þrátt fyrir tapið.

Það sáust oft fínir samleikskaflar í fyrri hálfleik en liðunum gekk illa að skapa sér einhver alvörumarktækifæri. KA-menn eiga frábæran spyrnumann sem er Hallgrímur Mar Steingrímsson og þessi flinki leikmaður kom Akureyrarliðinu í forystu á 38. mínútu. Hallgrímur fékk sendingu frá Elvari Árna Aðalsteinssyni rétt utan vítateigs. Hallgrímur lagði boltann fyrir sig og skoraði með frábæru skoti þar sem boltinn steinlá efst í markhorninu framhjá varnarlausum Þórði Ingasyni markverði Víkinga.

Elfar Árni Aðalsteinsson tvöfaldaði forystu KA-manna á 53. mínútu en fimm mínútum síðar jafnaði Guðmundur Andri Tryggvason metin með skallamarki af stuttu færi. 

Hallgrímur Mar Steingrímsson kom KA í 3:1 á 65. mínútu. Hann tók aukaspyrnu af um 30 metra færi. Skotið fór beint á Þórð sem missti boltann klaufalega í netið. Víkingar sóttu hart síðustu 20 mínútur og hafði Aron Dagur Birnuson í nógu að snúast á milli stanganna en strákurinn átti virkilega góðan leik.

Í uppbótartímanum minnkaði Kwame Quee muninn fyrir heimamenn en tíminn var of naumur fyrir Víkinga að krækja í stig og KA-menn fögnuðu vel og innilega í leikslok.

Fyrir lokaumferðina er KA í fimmta sæti deildarinnar með 28 stig en nýkrýndir bikarmeistarar Víkings eru í 10. sætinu með 25 stig.

Víkingur R. 2:3 KA opna loka
90. mín. Leik lokið +3 KA landar sætum sigri í Víkinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert