Veit ekki hvort við eigum Evrópusæti skilið

Eyjólfur Héðinsson
Eyjólfur Héðinsson mbl.is/Eyþór Árnason

Stjarnan hafði betur gegn Fylki í næstsíðustu umferð Pepsi Max-deildar karla í fótbolta í dag, 4:1, og á liðið enn möguleika á að ná þriðja sætinu í lokaumferðinni. Það myndi tryggja sæti í Evrópukeppni á næsta ári. Fylkir komst yfir í dag en Stjarnan svaraði með fjórum mökum og komu þrjú af þeim á fjórum mínútum strax í kjölfar marksins hjá Fylki. 

„Það var rosalega mikilvægt að ná jöfnunarmarkinu strax. Við fengum óheppilegt mark á okkur, sem var kjaftshögg, en svo spiluðum við rosalega vel eftir það. Sjálfstraustið jókst með hverri mínútunni og maður hafði það á tilfinningunni að við gætum skapað eitthvað í hvert skipti sem við sóttum á þá,“ sagði Eyjólfur Héðinsson, fyrirliði Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir leik. 

„Þeir voru opnir og við vel staðsettir á vellinum til að spila í gegnum þá. Þetta var vel útfærður leikur. Við áttum skot í stöng og slá í fyrri hálfleik og vorum líklegir. Þetta var flottur leikur og gott svar eftir hræðilega frammistöðu á móti Breiðabliki.“

Stjarnan verður að vinna ÍBV í lokaumferðinni og treysta á að FH misstígi sig gegn Grindavík, en bæði Grindavík og ÍBV eru fallin. 

„Það er alltaf möguleiki og við verðum að skora á Grindavík að reyna sitt besta og vonandi taka stig. Við þurfum að hugsa um okkur sjálfa og vona það besta. Á meðan það er möguleiki þá höldum við áfram. Við erum búnir að koma okkur í þessa stöðu sjálfir. 

Ég veit ekki hvort við eigum Evrópusætið skilið, ég verð að viðurkenna það. Ef við endum í þriðja sæti erum við samt þriðja besta liðið á Íslandi. Við vonum bara að Grindavík taki stig og vinni jafnvel í Kaplakrika,“ sagði Eyjólfur og bætti við að það yrðu mikil vonbrigði að ná ekki Evrópusæti. 

„Það yrðu mikil vonbrigði. Þetta er ekki búið að vera nógu gott tímabil. Við ætluðum okkur stærri hluti en þetta. Við erum langt frá því, en við getum reddað þessu tímabili ef við náum Evrópusæti,“ sagði Eyjólfur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert