Ætlum að svara fyrir okkur eftir skellinn í Svíþjóð

Jón Dagur Þorsteinsson fagnar með Sveini Aroni Guðjohnsen eftir að …
Jón Dagur Þorsteinsson fagnar með Sveini Aroni Guðjohnsen eftir að hafa skorað gegn Armenum í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Dagur Þorsteinsson, fyrirliði U21 árs landsliðsins í knattspyrnu, vonast til þess leikmenn svari fyrir skellinn sem íslenska liðið fékk í leiknum gegn Svíum á laugardaginn þegar það mætir Írum í undankeppni Evrópumótsins á Víkingsvellinum klukkan 15 á morgun.

Eftir góða sigra á móti Lúxemborg og Armeníu á Víkingsvellinum í síðasta mánuði steinlá íslenska liðið fyrir Svíum 5:0. Írar eru í toppsæti riðilsins með 10 stig eftir fjóra leiki en Ísland og Ítalía koma þar á eftir.

Gekk hreinlega ekkert upp hjá okkur

,,Þetta var vont. Að tapa 5:0 á móti Svíþjóð var erfitt og við vorum svekktir út í sjálfa okkur. Það gekk hreinlega ekkert upp hjá okkur á meðan allt gekk upp hjá Svíunum. Þetta er ekki munurinn á liðunum en við þurfum svo sannarlega að rífa okkur upp. Það er gott að fá þennan leik svona stuttu á eftir og helst myndum við vilja spila við Svía aftur í dag,“ sagði Jón Dagur í samtali við Morgunblaðið en hann leikur í dag sinn 18. leik með U-21 árs landsliðinu. Hann skoraði eitt mark í 3:0 sigrinum á móti Lúxemborg og skoraði einnig eitt mark í 6:1 sigrinum gegn Armeníu.

,,Við ætlum að svara fyrir okkur og sýna að þessi leikur á móti Svíunum var slys. Við vitum að Írarnir eru með gott lið en við erum góðir líka þótt við höfum ekki náð að sýna það í leiknum á laugardaginn. Við þurfum fyrst og fremst að spila okkar leik, vinna á okkar styrkleikum og ef við gerum það er ég sannfærður um að við getum strítt Írunum. Nú erum við búnir að skilja við þennan Svíaleik og öll einbeiting okkar er á leiknum við Írland. Við erum enn þá í fínum málum í riðlinum og sigur í þessum leik kemur okkur í betri stöðu,“ sagði Jón Dagur en síðasti leikur U21 árs landsliðsins í undankeppninni á þessu ári verður gegn Ítölum á útivelli í næsta mánuði.

Til marks um styrk írska liðsins þá vann það 3:1 útisigur á Svíum og gerði markalaust jafntefli við Ítali á heimavelli í síðustu viku.

Sjá greinina í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert