Öruggt hjá PSG í Smáranum

Danska landsliðskonan Nadia Nadim skýtur að marki Breiðabliks í kvöld. …
Danska landsliðskonan Nadia Nadim skýtur að marki Breiðabliks í kvöld. Kristín Dís Árnadóttir er til varnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Franska stórliðið PSG vann öruggan sigur á Breiðabliki 4:0 á Kópavogsvelli í kvöld í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu kvenna í knattspyrnu. Franska liðið er svo gott sem öruggt um sæti í næstu umferð keppninnar en liðin eiga eftir að mætast í París. 

PSG hafði öll völd á vellinum strax frá fyrstu mínútu. Liðið náði að skora snemma eða á 10. mínútu þegar hin norska Karina Sævik skoraði af stuttu færi eftir sendingu frá Diallo. Formiga skoraði einfalt skallamark af stuttu færi eftir hornspyrnu á 18. mínútu og kom því PSG í 2:0. Framherjinn Marie-Antoinette Katoto bætti þriðja markinu við á 29. mínútu með skoti neðst í vinstra hornið. Þá var spennan farin úr rimmu liðanna þótt ekki væri hálftími liðinn af leiknum.

Þessi forysta PSG var verðskulduð en liðið hélt boltanum alfarið innan sinna raða og lét skotin dynja á marki Breiðabliks og alls urðu þau fimmtán í fyrri hálfleik. 

Nálgun PSG var rólegri í síðari hálfleik en um leið voru leikmenn Breiðabliks afslappaðri en í fyrri hálfleik þegar spennustigið hafði greinilega áhrif. 

Lengi vel virtist sem Breiðabliki tækist að halda jöfnu í síðari hálfleik en PSG tókst að skora annað mark eftir hornspyrnu í uppbótartímanum. Miðvörðurinn Paulina Dudek skoraði þá með föstum skalla og innsiglaði sigurinn. 

Á heildina litið var þetta erfitt kvöld fyrir Blikana eins og tölurnar sýna en leikmenn liðsins geta dregið mikinn lærdóm af því að mæta andstæðingi í þessum gæðaflokki. 

Breiðablik sló út Spörtu frá Prag í 32ja liða úrslitum, 4:2 samanlagt, en PSG sló út portúgölsku meistarana Braga, 7:0 samanlagt.

Breiðablik 0:4 París SG opna loka
90. mín. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir (Breiðablik) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert