Brynjar og Albert í 2. deildina

Albert Brynjar Ingason og þjálfarinn Davíð Smári Helenarson handsala samninginn.
Albert Brynjar Ingason og þjálfarinn Davíð Smári Helenarson handsala samninginn. Ljósmynd/@kordrengir

Kórdrengir og Þróttur Vogum hafa fengið öflugan liðsstyrk fyrir næsta tímabil í 2. deild karla í fótbolta. Kórdrengir hafa samið við markahrókinn Albert Brynjar Ingason og Þróttarar við Brynjar Jónasson sem lék 13 leiki í úrvalsdeildinni með HK síðasta sumar.

Albert, sem er markahæsti leikmaður í sögu Fylkis, skoraði 9 mörk fyrir Fjölni í 1. deild í sumar þegar liðið tryggði sér sæti í úrvalsdeild. Eftir leiktíðina rifti þessi 33 ára gamli framherji samningi sínum við Fjölni og ákvað að róa á önnur mið.

„Kórdrengir eru gríðarlega ánægðir með þennan mikla liðstyrk sem Albert Brynjar er og einnig gríðarlega stoltir að hann hafi ákveðið að taka slaginn með okkur, frekar en þeim mörgu góðu liðum sem á eftir honum voru!“ segir í tilkynningu frá Kórdrengjum sem unnið hafa sig upp um tvær deildir á síðustu tveimur árum.

Kórdrengir hafa bætt við sig fleiri leikmönnum undanfarið. Bræðurnir Hákon Ingi og Páll Sindri Einarssynir komu frá Vestra, eftir að hafa komist upp úr 2. deild með liðinu í sumar. Þá hafa markvörðurinn Ingvar Þór Kale og Daníel Gylfason samið um að spila með liðinu áfram. Í tilkynningu Kórdrengja í dag segir að félagið ætli að styrkja sig enn frekar fyrir næstu leiktíð.

Marteinn Ægisson framkvæmdastjóri Þróttar, Brynjar Jónasson og Brynjar Gestsson þjálfari …
Marteinn Ægisson framkvæmdastjóri Þróttar, Brynjar Jónasson og Brynjar Gestsson þjálfari Þróttar. Ljósmynd/Þróttur V.

Þróttarar sömdu við Brynjar til tveggja ára. Brynjar, sem er 25 ára, hefur spilað með HK síðustu þrjú ár og fór með liðinu upp í úrvalsdeild en hann skoraði 10 mörk í 1. deildinni 2018 og sjö mörk árið áður. Brynjar hóf sinn meistaraflokksferil með Fjarðabyggð á sínum tíma og spilaði þar undir stjórn Brynjars Gestssonar sem tók við Þrótti á dögunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert