Arnar Sveinn og Þórir á förum?

Arnar Sveinn Geirsson gæti verið á förum frá Blikum.
Arnar Sveinn Geirsson gæti verið á förum frá Blikum. Mynd/úr einkasafni

Þórir Guðjónsson og Arnar Sveinn Geirsson, leikmenn meistaraflokks Breiðabliks í knattspyrnu, gætu verið á förum frá félaginu. Herma heimildir mbl.is að Óskar Hrafn Þorvaldsson, nýráðinn þjálfari Breiðabliks, hafi ekki hug á því að nota leikmennina á næstu leiktíð.

Báðir höfðu leikmennirnir hlutverki að gegna á síðustu leiktíð, en þeir komu til liðs við félagið þegar Ágúst Gylfason, núverandi þjálfari Gróttu, stýrði liðinu. Talið er að leikmennirnir falli ekki að hugmyndafræði Óskars, sem tók við liðinu nú í haust.

Fjölnir, Grótta og Þróttur hafa verið nefnd sem hugsanlegir áfangastaðir Þóris, en hann lék með fyrstnefnda liðinu áður en hann gekk í raðir Breiðabliks. Ekki er vitað á hvaða mið Arnar Sveinn mun leita ef svo fer að hann yfirgefi liðið.

Báðir eru leikmennirnir reynslumiklir í efstu deild. Þórir, sem er framherji, á að baki 128 leiki í deildinni og hefur skorað í þeim 33 mörk. Arnar Sveinn á að baki 103 leiki í efstu deild og hefur skorað í þeim 8 mörk, en hann hefur undanfarin ár leikið sem bakvörður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert