Heimaleikir Íslands spilaðir erlendis?

Spilar landsliðið leikina mikilvægu erlendis?
Spilar landsliðið leikina mikilvægu erlendis? Kristinn Magnússon

Ákvörðun um hvar íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mun leika í umspilsleikjunum í mars um sæti á Evrópumótinu verður tekin í nóvember. Þetta staðfesti Kristinn Jóhannsson, vallarstjóri á Laugardalsvelli, í samtali við Fótbolta.net fyrr í dag.

„Við erum að reyna að setja saman áætlun fyrir veturinn. Það verður vonandi tekin ákvörðun í lok nóvember hvernig þetta endar, hvaða leið við förum,“ er haft eftir Kristni. Aldrei áður hefur landsleikur verið leikinn á Laugardalsvelli í marsmánuði, en þó bindur Kristinn vonir við að hægt verði að spila á vellinum.

Heimavöllur Brøndby kemur til greina

„Ég er ágætlega bjartsýnn. Fyrir ári síðan hefði auðveldlega verið hægt að spila í mars. Þá var hann ófrosinn. Árið þar á undan var völlurinn gaddfreðinn. Ég veit ekki hvað gerist í vetur en við munum gera okkar besta til að ná þessum mikilvæga leik eða leikjum. Við erum að reyna að leita okkur þekkingar. Ég, starfsmenn golfvalla og starfsmenn á Laugardalsvelli erum að skiptast á hugmyndum.”

Ef Laugardalsvöllur verður ekki leikfær í marsmánuði verða leikir Íslands spilaðir erlendis. Þá hefur Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, látið hafa eftir sér í samtali við 433.is að þar komi leikvangur danska úrvalsdeildarliðsins Brøndby til greina. Leikvangurinn er staðsettur í höfuðborg Danmerkur, Kaupmannahöfn, og tekur um 28 þúsund manns í sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert